Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Atvinnuöryggi er undirstaðan
Föstudagur 21. febrúar 2014 kl. 09:38

Atvinnuöryggi er undirstaðan

– Einar Þ Magnússon skrifar

Atvinnumálin eru það sem ég hef lagt mesta áherslu á í bæjarastjórn. Fleiri störf, fleiri tækifæri og meiri tekjur fyrir svæðið eru grundvöllurinn fyrir unga fólkið, fjölskyldurnar og rekstur bæjarins.

Halda þarf áfram með verkefni í Helguvík á borð við kísilver, álver, vatnsútflutning og fleiri sem munu skapa bein störf og afleidd störf vegna þjónustu við þau. Styðja þarf við verkefni í tengslum við fiskeldi, fiskþurrkun og fleiri tækifæri til fullvinnslu á fiski. Það má ekki gleyma að flugstöðin er okkar stærsti vinnustaður og nýta þarf enn betur tækifærin í ferðaþjónustu. Ný tækni getur líka skapað okkur tækifæri og gott dæmi um það er gagnaverið á Ásbrú.

Skóla- og íþróttamál skipta mig líka miklu máli. Við þurfum að halda áfram því góða starfi sem unnið er í skólum bæjarins og hlúa vel að börnunum okkar. Bærinn okkar er og á að vera íþróttabær. Við viljum búa börnunum góðar aðstæður til að stunda íþróttir í forvarnarskyni og til að efla heilbrigði þeirra. Við viljum líka eiga íþróttafólk og lið í fremstu röð.

Ég vil efla Heilbrigðisstofnunina okkar með því að leggja mitt af mörkum til þess að hún fái nægilegt fjármagn og verkefni í þágu íbúanna.  Öflug heilbrigðisstofnun sem bæjarbúar eru stoltir af skiptir sköpum fyrir alla bæjarbúa og atvinnulífið.

Ég mun leggja mig allan fram til þess að við getum öðlast fleiri tækifæri sjálf og fyrir börnin okkar og bið þess vegna um stuðning ykkar í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins þann 1. mars nk.

Ég vil gera góðan bæ betri.

Einar Þ Magnússon
Bæjarfulltrúi og formaður Atvinnu- og hafnaráðs

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024