Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Atvinnumálin í sínu víðasta samhengi
Fimmtudagur 26. febrúar 2009 kl. 08:58

Atvinnumálin í sínu víðasta samhengi

Snúum bökum saman- virkjum hugmyndir, krafta og mannauð-mennt er svo sannarlega máttur.

Gagnrýni mín á ofuráherslu á eina starfsgrein umfram aðrar í atvinnu-og hafnarráði á  síðasta bæjarstjórnarfundi hefur snert við nokkrum framámönnum hér í bæ.   Mín afstaða til álvers er ljós.  Við höfum brennt okkur á því Suðurnesjamenn að ofuráhersla á eitt fyrirtæki s.s. varnarstöð Bandaríkjahers reyndist okkur ekki  happadrjúg og eins og mönnum er ljóst eru heimsmarkaðir í limbó,  ekki síst álmarkaðir.  En látum það vera.  Ég hef fyrir löngu játað mig sigraða í þessu máli og þar sem ég er þekkt fyrir að snúa vörn í sókn þá fagna ég því að það skuli þó reynast lífsmark með þessari miklu stórframkvæmd og hvet ríkistjórn, sem og  aðra þá sem áhrif geta haft á málið að leggja því lið þannig að við megum sjá verkefnið verða að veruleika, enda ekki vanþörf á, með yfir 1750 manns á atvinnuleysisskrá á svæðinu.

Gagnrýni mín á síðasta fundi beindist að því máttleysi sem mér virðist ríkja í þessum málaflokki, þegar heilt atvinnu-og hafnarráð bókar einungis um álver og hafnir svo mánuðum og árum skiptir.  Fyrr má rota en dauðrota.  Ég lét hafa eftir mér að hér hefði á árum áður verið til heilt batterí sem hefði haldið utan um frumkvöðla  og veitt þeim upplýsingar og aðgang til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.  Þetta fyrirbæri hét MOA, markaðs-og atvinnumálaráð.  Það var engu líkara en ég hefði minnst á eitthvað fyrirbæri sem bókstaflega hafi steypt okkur á barm glötunar, svo alvarlega að mér sýndist bæjarstjórinn signa sig og sagðist síðan ekki ætla að tala um MOA.  Gott og vel en það var nú samt hann sem rétt eftir að vera búinn að segja okkur að öll dýrin í skóginum væru vinir, slátraði nokkrum þeirra, það getur varla hafa verið að ástæðulausu.  En látum hann þegja.  Þetta er kannski eins og með Davíð Oddsson sem segist vita meira en hann segir, við skulum bara vona að það gildi um þá báða.   En snúum okkur að því sem máli skiptir.
 
Ég tók m.a. fram á fundinum að ég væri ánægð með mörg þau verkefni sem fram hefðu komið en áhyggjur hefði ég af því hversu fjárfrek þau væru,s.s. Víkinganaustið, sem er frábærlega hannað og merkilegt naust og fleira nefnt  sem ég vissi að einungis væri lagt fram af góðum vilja.  Kostnaðurinn væri  hinsvegar orðinn óheyrilegur.  

Í starfi mínu hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hef ég heldur betur orðið vör við sjálfsbjargarviðleitni fólks hér á Suðurnesjum.  Fólk flykkist í skóla og hafa margir notið þess við erfiðar aðstæður eftir atvinnumissi að setjast á skólabekk og það er vel.  En það er ekki nóg.  Við erum með fjöldann allan af fólki með frábærar hugmyndir og það kom bersýnilega í ljós á fyrsta fundinum  um HUGMYNDIR VANTAR FÓLK sem haldinn var í húsnæði Virkjunar  (byggingu 740),í síðustu viku, hversu hugmyndaríkir Suðurnesjamenn eru.  Með dyggum stuðningi  kennara Keilis úr frumkvöðladeildinni, starfmönnum kostuðum af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og innihaldsríku innileggi Alberts Albertssonar, guðföður  Hitaveitunnar,  fékk fólk bókstaflega vængi og gaf hugmyndaflæðinu lausan tauminn.   Næsti fundur  um „Hugmyndir vantar fólk“  verður haldinn næstkomandi fimmtudag kl. 17.00 uppi í Virkjun og hvet ég alla þá sem luma á hugmyndum að koma og leggja verkefninu lið.  Þetta er jákvæð uppbygging og þó að við séum mörg hver að kikna undan  áhyggjum yfir ástandinu,  látum ekki deigan síga.   Snúum bökum sama.  Viðkvæmni fyrir því sem við hefðum getað gert betur þarf að víkja nú, ég geri mér grein fyrir því.   Stöndum saman Suðurnesjamenn og sköpum okkur lífsviðurværi.  Náum í peninga úr öllum þeim sjóðum sem til eru og ávöxtum þá vel.

Með baráttukveðju,
Sveindís Valdimarsdóttir bæjarfulltrúi í Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024