Atvinnumál
Vinstri grænir eru komnir í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Hvaða þýðingu hefur það fyrir land og þjóð á þessum erfiðu tímum sem framundan eru, að hér sé komin vinstri stjórn, minnihlutastjórn sem er studd og varin vantrausti af Framsóknarflokknum. Jafnvel heyrist að þessir flokkar myndi kosningabandalag til að gera það mögulegt að vinstri stjórn verði áfram við völd eftir kosningar. Hvaða áhrif getur það haft á atvinnumál í Suðurkjördæmi.
Sjávarútvegurinn
Atvinnuleysi á landinu fer sívaxandi og mikilvægt er að taka rétt skref til hjálpar atvinnulífinu. Í Suðurkjördæmi búum við svo vel að vera rík af auðlindum til lands og sjávar. Með sterkan sjávarútveg í Grindavík, Vestmannaeyjum, Höfn og víðar í kjördæminu. Sjávarútvegurinn hefur alltaf verið mikilvægur þjóðarbúinu en aldrei sem nú, þess vegna þarf að hámarka tekjur þjóðarbúsins úr auðlindinni. Hins vegar telja margir að sveiflur í veiðum séu oft á tíðum svo miklar að ekki megi treysta á sjávarútveginn eingöngu í öflun gjaldeyristekna. Við höfum fleiri tækifæri sem við getum nýtt í þessu kjördæmi. Fleiri hundruð störf geta skapast í kjördæminu í orkufrekum iðnaði á næstu árum, ef ekki verður komið í veg fyrir það af vinstri stjórn. Þjóðin þarf á nýjum atvinnutækifærum að halda, sem skila tekjum í þjóðarbúið.
Orkan
Raforkuframleiðsla er mjög mikil í kjördæminu á Reykjanesi, Hellisheiði og á Þjórsársvæðinu. Við eigum að nýta orkuna til atvinnusköpunar í okkar eigin kjördæmi að svo miklu leyti sem við þurfum. Margar hugmyndir eru uppi um það með hvaða hætti það skuli vera. Í Helguvík er Norðurál komið vel á veg með álverið og vonandi verður ekkert sem kemur í veg fyrir að það rísi. Aðrar hugmyndir um uppbyggingu í Helguvík eru einnig til skoðunar, en styttra á veg komnar. Í Þorlákshöfn hafa menn verið að skoða fjöldann allan af verkefnum og ljóst að mikill áhugi er á uppbyggingu atvinnutækifæra i orkutengdum iðnaði. Umhverfisvæn orka verður æ mikilvægari þegar til framtíðar er litið og því mikilvægt fyrir okkur að treysta umhverfi orkuframleiðslu enn frekar.
Ríkisrekstur
Verði hér vinstri stjórn við völd eftir næstu kosningar er sú hætta fyrir hendi að stefni í ríkisrekstur á mörgum sviðum og þá blasir við að það mun taka miklu lengri tíma fyrir landið að komast upp úr kreppunni.
Reynslan
Hvað er skynsamlegt að gera í atvinnumálum nú, höfum við efni á öðru en að líta í allar áttir þegar rætt er um nýtingu orkuauðlinda. Við höfum aflað okkur mikillar þekkingar og reynslu í orkumálum í gegnum árin. Því hlýtur að vera skynsamlegast að byggja áfram á þeim grunni, án þess að ganga of nærri auðlindinni og með það að leiðarljósi að ganga ekki á möguleika komandi kynslóða.
Framtíðin
Við sjálfstæðismenn horfum til framtíðar í þessum málum sem og öðrum brýnum þjóðfélagsmálum. Það er enn í full gildi sem við sjálfstæðismenn höfum alltaf verið sannfærð um – að frelsi einstaklingsins til athafna sé besta leiðin til að hér þróist og byggist upp gott samfélag. Og enn erum við jafn sannfærð um að frelsinu fylgi ábyrgð og að einstaklingurinn beri ábyrgð á eigin gjörðum. Suðurkjördæmi býr yfir miklum og verðmætum náttúruauðlindum og sjálfstæðismenn munu halda áfram að vinna að því með íbúum að treysta og efla undirstöður öflugs atvinnulífs í kjördæminu.
Björk Guðjónsdóttir alþingismaður
Sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.