Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Atvinnuleysi á Suðurnesjum
Fimmtudagur 11. október 2012 kl. 09:46

Atvinnuleysi á Suðurnesjum

Ég er í vinnumarkaðsráði á Suðurnesjum fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Vinnumarkaðsráð er skipað samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir frá 2006 og er hlutverk ráðsins að fylgjast með stöðu atvinnumála og gera tillögur um áherslur í aðgerðum.  

Vinnumarkaðsráð fór á síðasta fundi yfir árangur og úrræði í Suðurnesjum. Niðurstaðan er sú að smátt og smátt hafa þróast á Suðurnesjum úrræði fyrir flesta hópa atvinnulausra í nánu samstarfi ríkis, sveitarfélaga, vinnumálastofnunar, félagsmálayfirvalda, símenntunarmiðstöðva og stéttarfélaga. Kerfið hefur þróast í nánum tengslum við þá einstaklinga sem þarf að þjónusta án miðstýringar.

Hugsað er um atvinnuleysi sem vandamál sem mikilvægt er að leysa og þeir atvinulausu búi yfir verðmætum sem þeir vilja nýta í þágu samfélagsins og einingar í kerfinu bera virðingu fyrir þeim verðmætum og vilja nýta þau. Vinnumálastofnun og Sveitarfélögin eru á sitt hvorum enda starfseminnar.  Vinnumálastofnun hefur gögn sem veita yfirsýn um stöðu á vinnumarkaði og úrræði sem eru í boði en Sveitarfélögin hafa yfirsýn á þá hópa sem nýta félagsþjónustuna og hvernig beina má þeim hópi í úrræðin sem eru fyrir hendi.

Vinnumálastofnun hefur úrræði sem fyrst og fremst eru frá ríkinu. Úrræðin byggja á að nýta skólakerfið til að styrkja atvinnuleitendur og finna heppileg störf í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu. Nú nýlega gekk ASÍ í lið með vinnumálastofnun og rekur sína eigin starfsmiðlun í nánu samstarfi við atvinnulífið. Einnig hefur vinnumálastofnun yfir að ráða samstarfssamningum um frumkvöðlastarf og sjálfboðaliðastarf.

Björgin er miðstöð geðræktar á Suðurnesjum. Þangað sækir breiður hópur fólks sem ekki er tilbúið í beina starfsendurhæfingu heldur þarf að styrkja sig eftir langvarandi veikindi t.d. þunglyndi. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun einstaklinga og gera þá aftur að virkum þátttakendum í samfélaginu.

Samvinna er starfsendurhæfing fyrir einstaklinga sem eru frá vinnu vegna veikinda og slysa. Það fer fram atvinnutengd endurhæfing þar sem lögð er áhersla á að einstaklingar þjálfi upp þá færni sem þeir hafa misst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölsmiðjan er atvinnutengdur stuðningur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára. Í Fjölsmiðjunni vinna einstaklingar að ýmsum verkefnum og er lagður áherslu á stuðning og aðstoð við unga fólkið til að finna styrkleika sína og áhugasvið svo þeir verið betur í stakk búnir til að finna sér framtíðaratvinnu.

Atvinnutorg Suðurnesja er úrræði í samstarfi við sveitarfélög fyrir unga atvinnuleitendur sem eru vinnufærir og þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sér til framfærslu. Atvinnutorgið býður upp á atvinnutengd úrræði, t.d. vinnustaðanám eða tímabundna ráðningu.

Miðstöð símenntunar á suðurnesjum er símenntunarmiðstöð sem í samstarfi við þá sem eru með virkni og starfsendurhæfingarúrræðu. Miðstöð símenntunar býður upp á ýmis úrræði sem styrkja einstaklinga á vinnumarkaði með sjálfsstyrkingu, lesblindugreiningum, þjálfun í að meta hæfni einstaklinga og setja hana fram, viðtalstækni og almennt nám.

Virkjun er virknimiðstöð fyrir alla sem byggir á sjálfboðaliðastarfi. Í Virkjun er fjölþætt starfsemi þar sem aðilar eru virkjaðir til að halda utanum starfið og miðla öðrum af þeirri þekkingu sem þeir búa yfir. Í virkjun hafa atvinnulausnir, eldri borgarar og öryrkjar byggt upp sterkt og nærandi samfélag þar sem stuðningur og virkni einstaklinga er lykilatriði.  

Að mínu mati hefur byggst upp stór-merkilegt kerfi sem fyrst og fremst er byggt í kringum þarfir atvinnulausra á svæðinu. Vinnumálastofnun og félagsþjónustan sér um að meta árangur starfsins og bregðast við ef atvinnuleysi er mikið í ákveðnum hópum eða úrræði nýtast ekki sem skildi. Í þeim úrræðum sem eru í boði fyrir atvinnulausa er kostnaði haldið í lágmarki og áhersla fyrst og fremst lögð á sveigjanleika og grundvallarþætti úr frá ólíkum þörfum.

Inga Sigrún Atladóttir