Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Atvinnuleiðin er eina leiðin!
Mánudagur 22. ágúst 2011 kl. 11:34

Atvinnuleiðin er eina leiðin!

Grein Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi og formanns fjárlaganefndar, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. ágúst kom mér á óvart – en kannski ekki. Oddný bendir réttilega á að fjárfesting á Íslandi er í lágmarki.  Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ ásamt meirihluta sjálfstæðismanna hefur barist ötullega fyrir framgangi  nýrra atvinnutækifæra. Oddný lætur í það skína að greinaskrif bæjarstjórans verði til þess að fæla fjárfesta frá Suðurnesjum. Hið rétta er að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur fælt frá fjárfesta og hamlað hagvexti sem byggir á atvinnuuppbyggingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki hafa dregið úr einkaneyslu og nauðsynlegum hagvexti. Áform ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir á gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar stóriðju og sjávarútveg munu einungis draga úr hagvexti. Samtök atvinnulífsins bentu á þetta í opnu bréfi til forsætis- og fjármálaráðherra þann 16. ágúst sl. Í bréfinu kemur fram að ekki virðist vilji til að fylgja eftir markmiðum um auknar fjárfestingar, minna atvinnuleysi og meiri hagvöxt sem gæti skilað ríkssjóði sjálfkrafa auknum skatttekjum. Aðeins virðist nást samstaða um vanhugsaðar aðgerðir gegn stóriðju, sjávarútvegi og atvinnulífinu yfirleitt.  


Atvinnuleysi er hvergi meira en á heimasvæði þingmannsins. Sem íbúi á svæðinu hef ég saknað þess að Oddný sem þingmaður Suðurkjördæmis hafi talað af krafti fyrir framgangi þeirra atvinnutækifæra sem hér bíða. Því miður er ekki pólitískur vilji hjá þeirri ríkisstjórn sem flokkur þingmannsins er aðili að til að standa með og efla atvinnusköpun og fjárfestingar hér á landi. Það er sorgleg staðreynd.  



Magnea Guðmundsdóttir
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ