Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Atvinnu- og verðmætasköpun í nútíð og framtíð – hvernig?
Laugardagur 25. maí 2013 kl. 14:28

Atvinnu- og verðmætasköpun í nútíð og framtíð – hvernig?

Síðustu árin hef ég lagt atvinnuuppbyggingu lið enda er fátt mikilvægara framtíð okkar Íslendinga en öflug atvinnuuppbygging í nútíð og framtíð. Við eigum að virkja en nýta auðlindir okkar með sjálfbærum og ábyrgum hætti í framtíðinni.  Vinna saman að því að skapa fjölbreytt og vel launuð störf – eins og sæmandi er lífsglaðri, áræðinni og vel menntaðri þjóð með túnfótinn smekkfullan af tækifærum. Við verðum að framleiða og skapa verðmæti til að bæta lífskjörin. Atvinnulífið er forsenda bættrar stöðu heimilanna og samfélagsins alls.

Taka þarf þjóðhagslega hagkvæm verkefni úr frystinum
Stór atvinnuverkefni, sem hafa verið í burðarliðnum í mörg ár hafa sum frosið föst vegna pólitísks ágreinings og breyttra forsenda og fjárfesting í atvinnulífinu verið í lágmarki. Þessi verkefni verðum við að taka úr frystinum og greiða götu þeirra þannig að verðmæta-  og atvinnusköpun hefjist sem fyrst. Álver Norðuráls í Helguvík mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif í hagkerfinu öllu sem og virkjanir á Reykjanesi, Hverahlíð og í neðri hluta Þjórsár. Þar er lítill ágreiningur um tvo virkjanakosti af þremur og á þeim mætti byrja nú þegar. Hér er verið að tala um verkefni sem skapa 10.000 ársstörf á næstu árum, hundruð varanlegra og vel launaðra starfa og milljarð í mánaðarlegar skatttekjur á framkvæmdatíma.
Ný ríkisstjórn mun vinna með atvinnulífinu og verður að knýja fast á um orkusamninga sem komið geta álveri í Helguvík af stað. Samningur þyrfti að mínu mati að gerast á fyrstu starfsvikum nýrrar ríkisstjórnar.

Skapa þarf ný atvinnutækifæri
Við þurfum einnig að skapa ný tækifæri og byggja upp nýjar atvinnugreinar. Þar getum við t.d. horft til starfsemi fyrirtækja sem sinna þjónustu við rannsóknir og framkvæmdir á hafi úti. Hér má sem dæmi nefna rekstur björgunarskipa, vaktskipa og birgðaskipa. Einnig hefur þessi iðnaður jákvæð áhrif á rekstur hafna og flugvalla og nær allar atvinnugreinar okkar því jaðaráhrifin eru mikil.

Okkar helstu nágranna- og frændþjóðir hafa byggt upp öflugan iðnað í kringum olíuleit og olíuvinnslu í höfunum allt í kringum okkur. Í vestri eru það Kanada og Grænland, í austri Færeyjar, Drekasvæðið og Noregur og þaðan liggja vinnsluvæðin nær óslitið í suður, inn í Miðjarðarhaf og eftir allri vesturströnd Afríku. Teikn eru á lofti um að ýmis starfsemi á norðurslóðum muni aukast á næstu árum, t.d. eftirlit. Umfang og jaðaráhrif þessa iðnaðar er gríðarlegt, hvort sem horft er til veltu, afkomu eða daglegrar starfsemi. Færeyingar hafa herjað á þessi mið sl. 20 ár og með þeim ættum við að vinna og draga lærdóm af því sem vel hefur tekist hjá þeim. Færeyingar stóðu vel að sínum málum og tryggðu t.d. að öll olíuleit og vinnsla í færeyskri lögsögu skyldi þjónustuð frá Færeyjum. Við Íslendingar þurfum líka að tryggja að starfsemi sem þessi skili störfum, fjármunum og þekkingu til Íslands.

Þetta styrkir og tryggir fjölbreytni í útgerð, hafnarstarfsemi, vertakavinnu, fjármálastarfsemi og verkfræðiþjónustu svo fá dæmi séu nefnd. Á þessi mið þurfum við Íslendingar að sækja og huga fyrst og fremst að þjóðarhagsmunum og uppbyggingu til framtíðar.

Við þurfum einnig að hvetja til fjárfestinga í sjávarútvegi, en við endurnýjun fiskiskipaflotans má horfa til ofangreindra tækifæra. Norðmenn hafa t.d. útbúið ný uppsjávarskip þannig að þau geti sinnt verkefnum tengdum olíuleit og olíuvinnslu utan vertíðar.

Aukum kvótann
Miðað við fiskgengd á miðum í kringum landið í allan vetur eru tækifæri á að auka fiskveiðikvótann. Mæta verðlækkun á mörkuðum með auknu framboði svo halda megi í þær tekjur sem sjávarútvegurinn leggur til í þjóðarbúið. Við minnkuðum kvótann þegar vel áraði, nú þarf sú skerðing og rúmlega það að koma til baka.
Stjórnvöldum ber að styðja við atvinnulífið og tryggja því það lagaumhverfi sem best nýtist því til sóknar. Að þessu þarf þing og þjóð að vinna saman. Alþingi þarf að skilja þarfirnar og tryggja íslenskum fyrirtækjum forskot til uppbyggingar arðbærrar starfsemi á sjó og í landi.

Áfram Ísland!
Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024