Atlaga að Guðna í flokksmannaprófkjöri Framsóknarflokksins
Nú gera stuðningsmenn Hjálmars Árnasonar með atfylgi utanflokksmanna úr Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni harða hríð að nýkjörnum varaformanni flokksins í prófkjöri í Suðurkjördæmi. Atlagan er gerð með eldgamla og úrelta hreppapólitík að vopni. Auðvitað eru þingmenn fyrst og fremst þingmenn allrar þjóðarinnar síðan kjördæmis þess sem þeir eru fulltrúar fyrir og svo þess landshluta sem þeir tilheyra.
Best sést á miða sem Hjálmar hefur dreift að hann ætlar að byggja fylgi sitt á fólki úr öðrum flokkum. Miði þessi er ólöglegur að mati undirritaðs þar sem fullyrt er að allir 16 ára og eldri megi kjósa í prófkjörinu en það er ekki rétt því einungis flokksmönnum eða þeim sem ganga í flokkinn er heimilt að kjósa.
Atlaga þessi er greinilega ekki gerð til að efla Framsóknarflokkinn heldur leiðir hún af sér sundrungu innan flokksins hvernig svo sem útkoman verður. Guðni er einn af mest áberandi og traustustu forystumönnum flokksins og gegnumheill Framsóknarmaður og því ómissandi sem annar af leiðtogum okkar í komandi Alþingiskosningum og því verður að tryggja það að hann leiði flokkinn í kjördæmi okkar.
Jón Eysteinsson,
Framsóknarmaður í Keflavík