Athyglivert tilboð – en nei takk
Róbert Marshall biðlar með athygliverðum hætti til Suðurnesjamanna í síðasta tbl. Víkurfrétta. Þar reynir hann að telja lesendum trú um að Samfylkingin sé til þess fallin að mynda næstu ríkisstjórn og leggur áherslu á þrjú mál, sem hann segir standa upp úr fólki sem hann hefur hitt að undanförnu. Málin þrjú eru sömu mál og formaður flokksins hefur fjallað um á yfirreið sinni um landið að undanförnu.
Þegar Róbert talar um málefni eldri borgara, þá á hann líklega við meintan ójöfnuð sem Samfylkingin hefur blásið upp að undanförnu með einkennilegum reiknikúnstum þrátt fyrir að prófessor við efnahags- og viðskiptadeild HÍ hafi sannreynt það að tekjur allra hópa í samfélaginu hafi tvöfaldast frá árinu 1993 og enginn hópur dregist aftur úr öðrum. Róbert kemur hér ekki auga á vandamálið, sem auðvitað er að taka upp framfærslugrunn, þannig að reiknað sé út hversu mikið kostar að lifa í þessu landi og að tryggingabætur og önnur framfærsluviðmið fái leiðréttingu samkvæmt því, sé á þeim þörf. Fyrr en við höfum komist að niðurstöðu um þetta viðmið, verður öll umræða um tekjur, bætur og framfærslu marklaus og verður áfram þvaður um mismunandi forsendur sem hver og einn gefur sér. En líklega hefur Róbert verið utan þjónustusvæðis þegar breytingar voru gerðar á kjörum eldri borgara með tilheyrandi kaupmáttaraukningu.
Í annan stað nefnir Róbert samgöngumál. Reykjanesbraut hefur nú verið tvöfölduð að hluta og verður tvöföldun að fullu lokið í síðasta lagi fyrir árslok 2008 og hugsanlega fyrr. Það verk má þakka heimamönnum sem unnið hafa ötullega að því að halda mikilvægi málsins á lofti. Á komandi vikum má gera ráð fyrir kröftugri umræðu um tvöföldun Suðurlandsvegar. Allir þeir sem ekið hafa bæði um tvöfalda Reykjanesbraut og 2+1lausn á Hellisheiði gera sér strax grein fyrir því hver munurinn er. Það sem hins vegar verður bitbeinið í umræðunni, er hvort tvöföldun beri að fjármagna í einkaframkvæmd. Slíku hafna Framsóknarmenn, því staða ríkissjóðs hefur aldrei verið betri en nú og tæpleg er hagkvæmara að fá þriðja aðila að taka fyrir sig lán með tilheyrandi kostnaði við "veskið" sem verður þar á milli að ekki sé talað um hugsanlega gjaldtöku á vegfarendur.
Í þriðja lagi nefnir Róbert eitthvað sem hann kallar dýra Ísland. Hvar ætli Róbert hafi verið þegar ríkisstjórnin kynnti lækkun virðisaukaskatts á matvæli og aðgerðir ASÍ, Neytendastofu og Neytendasamtakanna til að fylgja því eftir? Eigum við ekki að hinkra og sjá hvað gerist Róbert áður en dómar eru felldir?
Burðarhlutverk Samfylkingarinnar í næstu ríkisstjórn er tálsýn og sigurlisti Samfylkingarinnar sem Róbert fjallar um í grein sinni er óskhyggja. Formanni hennar er ekki treystandi fyrir því að fara með almennar staðreyndir. Þingflokknum er ekki treystandi. Samfylkingin er of pólitísk. Formaðurinn hefur daðrað við Sjálfstæðisflokk að undanförnu, þvert ofan í hið meinta kaffibandalag við Vinstri græna og Frjálsynda. Það finnast ekki ein einustu rök sem hníga að því að Samfylkingin sé forystuafl. Þvert á móti. Kjósendur í Suðurkjördæmi munu sýna það í komandi kosningum.
Brynja Lind Sævarsdóttir.