Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 13. október 2003 kl. 12:00

Athugasemd við ályktun félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ

Ágætu stjórnarmenn.

Um leið og ég þakka þann vinarhug og nágrannakærleika sem felst í ályktun ykkar um nauðsyn þess að sameina Reykjanesbæ Sandgerðisbæ er rétt að minna á, að sameining þarf að hafa ávinning í för með sér fyrir báða aðila. Ég geri þær kröfu að umræður er snerta sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum, séu ekki byggðar á t.d. forsendu, byggða á mistökum Fasteignamats ríkisins og snertir endurgreiðslu Sandgerðisbæjar á ofgreiddum fasteignaskatti, til stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ehf. Rekstur hafnarinnar í bæjarfélaginu er hinsvegar áhyggjuefni enda er um að ræða sambærilegan vanda og kemur fram í rekstri Hafnasamlags Reykjanesbæjar þ.e. of litlar tekjur miðað við skuldir.

Tekið er einnig undir áhyggjur félagsins er snertir atvinnumál svæðisins og hægt er að færa fyrir því rök að stærri einingar geta náð mun meiri árangri en þær smærri. Það er hinsvegar óheppilegt að hefja umræðu um sameiningu sveitarfélaga, á forsendu, sem byggir ef til vill á þeirri ,,tilfinningu” að við Sandgerðingar þurfum á því að halda, að koma til “búðar” í Reykjanesbæ sem beiningamenn.

Umræða um sameiningu tveggja sveitarfélaga verður að byggja á vitrænum forsendum og það væri æskilegt - tilvalið að kalla eftir rauntölum um stöðu og horfur í rekstri sveitarfélaganna á Suðurnesjum ef ,,félagið” vill taka upp umræðu um slík mál. Það er von, að með þeim hætti væri hægt að koma í veg fyrir ranga ályktun á röngum tíma í viðkvæmu máli.  Slík ákvörðun væri þá einnig tekin eftir umræður byggðar á raunverulegum forsendum um kosti og/eða ókosti þess að sameina sveitarfélög á Suðurnesjum.

Hvað varðar þau áföll sem bæjarfélagið stendur nú frammi fyrir, þá er um úrlausnar-efni að ræða, sem sveitarstjórn tekst nú á við. Bæjarfulltrúar Sandgerðisbæjar hafa fram til þessa lagt áherslu á, að íbúar og fyrirtæki nytu þess að vera búsettir eða með rekstur innan marka bæjarfélagsins vegna traustrar stöðu sveitarfélagsins. Fullyrðing um að rekstur bæjarfélagsins verði æ þyngri og illviðráðanlegri með ári hverju vísa ég til almennrar þróunar í rekstri sveitarfélaga en rekstur Sandgerðisbæjar hefur verið í jafnvægi og framlegð  sveitarsjóðs góð.

Rétt er að ítreka að Sandgerðisbær hefur ekki nýtt sér hækkun álagningarstofna í útsvari, fasteignaskatti eða öðrum þjónustugjöldum. Bæjarfélagið hefur heldur ekki selt eignir sínar og þjónustustigið er gott í lögbundnum  - mikilvægustu málaflokkum í rekstri bæjarfélagsins. Þrátt fyrir áföll, þá mun rekstur bæjarfélagsins ná landi í þeim ólgusjó sem  sveitarfélagið stendur nú frammi fyrir. Umræðan á næstu vikum mun snúast um stöðu bæjarfélagsins og við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, verða tekjustofnar bæjarfélagsins endurskoðaðir. Tekjur Sandgerðisbæjar gætu orðið mun meiri ef sömu álagningarstofnar væru notaðir og t.d. Reykjanesbær notar í dag.

Hinsvegar skil ég áhugann á sameiningu, hér er eftir nokkru að slægjast. Höfum hinsvegar í huga að íbúar beggja sveitarfélaganna þurfa að sjá hagnað af sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Virðingarfyllst.                                   

Sigurður Valur Ásbjarnarson , bæjarstjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024