Athugasemd frá forstjóra HS Orku
Í fréttum í dag kemur fram að viðræður hefjist innan skamms um að að leigutími samnings Magma Energy við Reykjanesbæ verði styttur. Í þessum fréttum hefur komið fram misskilningur sem rétt er að benda á:
1. Það er HS Orka hf sem átti auðlindirnar en seldi síðan til að tryggja opinbert eignarhald til annarsvegar Reykjanesbæjar og hinsvegar Grindavíkurbæjar, gegn leigu auðlindanna til 65 ára. Magma hefur því engan slíkan samning gert enda ekki einu sinni meðal eigenda þegar samningaviðræður hófust.
2. Eins og fram kom í 1. lið er Grindavíkurbær með samskonar samning varðandi Svartsengi og Reykjanesbær er með varðandi Reykjanesið.
1. Samningarnir eru til 65 ára og þegar helmingur tímans er liðinn getur leigutaki óskað eftir viðræðum um framlengingu eins og lög kveða á um. Væri sú framlenging til 65 ára frá þeim degi væri heildarleigutíminn 65 + 32,5 ár eða 97 – 98 ár enda hvergi tekið fram að hann eigi að tvöfaldast. Þess má geta að bæði Reykjanesbær og HS Orka hafa ljáð máls á endurskoðun samningstímans.
2. Það má benda á að Hitaveita Suðurnesja keypti auðlindina í Svartsengi af einkaaðilum 1975 eða fyrir 35 árum. Nýjasti hluti orkuversins (30 MW) var gangsettur 2007 og þar áður önnur 30 MW virkjun árið 1999. Hvorugur þessara áfanga hefði verið byggður með 30 – 35 ára leigutíma en þessir áfangar samsvara yfir 80% af raforkuframleiðslu í Svartsengi.
Júlíus Jónsson
Forstjóri HS Orku hf