Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 26. mars 2003 kl. 09:03

Áþreifanleiki sögunnar

Fyrirhugaður Suðurstrandarvegur hefur verið til umræðu af og til í vetur. Í umræðunni hefur undirritaður aðallega vakið athygli á þrennu í því sambandi.
Í fyrsta lagi hefur hann talið veginn lítt til forgangs á leggjandi, enda sæmilegur vegur í dag á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Sá vegur fyrirliggjandi býður bæði upp á útsýni og aðgengi að áhugaverðum ferðamannastöðum. Um eittþúsundogfjögurhundruðmilljónum krónur á greiða úr vasa skattborgara til að fullgera nýjan veg, sem fyrst og fremst virðist vera gæluverkefni örfárra stjórnmálamanna.Í öðru lagi hefur undirritaður bent á mikilvægi þess að hvorki skemma né raska hinum fjölmörgu merkilegu minjum, sem eru í fyrirhugðu vegstæði, eins og tillögurnar hafa legið fyrir um. Má þar nefna ómetanlega hella, hlaðnar refagildur, hlaðin fjárskjól, minjar frá því fyrir landnám norrænna manna hér á landi, sæluhús, fornar þjóðleiðir, dysjar, forna garða og fjárborgir. Mörgum ómeðvituðum gæti þótt þetta óþarfa áhyggjur því varla gæti svo gamalt drasl verið svo merkilegt. Þeim hinum sömu er því til að svara að allt það er lítur að sögu okkar og menningu, þjóðfélagsþáttum, búskaparháttum og þjóðlífsháttum skiptir ekki bara miklu máli heldur og er það grundvöllurinn, sem íslenskt þjóðfélag og tilvist okkar allra byggir á - meðvitað eða ómeðvitað - hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Í þriðja lagi hefur gagnrýni undirritaðs fyrir byggingu nýs vegar fyrst og fremst beinst að bæjarstjóra og bæjarstjórn Grindavíkur. Ástæðan er sú að það er hennar að hafa veruleg árif á hver endanleg niðurstaða verður um vegstæðið. En þótt undirritaður geti verið harðfylginn sér og sínu getur hann einnig verið sanngjarn. Í því sambandi er rétt að nefna tvennt.

Annars vegar hefur hann og bæjarstjóri Grindavíkur átt með sér ágætt samstarfs í tvennum skilningi. Bæjarstjóri hefur tekið vel í ábendingar undirritaðst um verðmæti sögulegra minja í landi Grindavíkur og þegar gert ráðstafanir til þess að þær megi nýta, bæði í þágu bæjarbúa og áhugasamra ferðamanna, og auk þess hefur hann sjálfur lagt sig fram við að kynna sér á fæti hvað landið hefur upp á bjóða. Þannig hefur verið gengið ásamt öðru áhugasömu fólki í Grindavík um nokkra staði þar sem sögulegar minjar er að finna, s.s. í Húshólma, við Selöldu, í Sundvörðuhrauni, í Staðarhverfi, við Grindavíkurveginn og víðar. Þennan áhuga og hinn jákvæða vilja ber að meta að verðleikum. Þá hefur bæjarstjóri lýst því yfir að hann muni gera hvað hann getur til að sögulegar minjar fari ekki forgörðum þegar kemur að lagningu nýs Suðurstarndarvegar. Þessi jákvæða afstaða bæjarstjórans verður að teljast til fyrirmyndar.
Hins vegar hefur fulltrúi Vegargerðarinnar haft samband við undirritaðan og lýst áhuga á samstarfi. Eftir að undirritaður lét Vegagerðinni í té hátt í fimmtíu ábendingar um hugsanlegar minjar kvað hann vilja Vegagerðarinnar að raska sem allra minnst minjum á því svæði, sem veginum er ætlað að fara yfir. Farið yrði yfir allar ábendingar og reynt að taka tillit til þeirra eftir föngum. Þessi afstaða þótti undirrituðum einnig til fyrirmyndar og er ekki ástæða til annars en að geta hennar.

Að lokum þetta: Í fyrirhuguðu vegstæði fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar eru fjölmargar ómetanlegar minjar. Erfitt getur verið að sannfæra fólk um að þær séu til því fæst hefur borið þær augum - og fólk vill jú bara trúa því sem það hefur séð eigin augum og þreifað á. Við því er bara eitt svar: Farið, skoðið og snertið! Ástæðan er sú að verðmæti framtíðarinnar mun ekki birtast fólki á skjánum eða á kránum. Þau verða í áþreifanleika sögunnar.

Virðingarfyllst,

Ómar Smári Ármannsson,
áhugamaður um útivist, minjar og sögu.



Undirstrokað er að undirritaður er ekki á móti veginum sem slíkum, en hann hefur bent á að gaumgæfa þarf vel legu hans áður en af framkvæmdum verður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024