Ástæða hækkunar á heitu vatni til sveitarfélaga
Á fundi bæjarráðs Grindavíkur þann 14. september s.l. var skorað á stjórn HS Veitna hf. að endurskoða ákvörðun um hækkun á heitu vatni til Sundmiðstöðvar Grindavíkur og var bókað að uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. á sínum tíma leiddi nú til þessarar ákvörðunar.
Vegna þessarar bókunar bæjarráðsins er rétt að útskýra ástæðu hækkunarinnar. Til margra ára var það svo að sveitarfélögin á Suðurnesjum, sem eignaraðilar Hitaveitunnar, fengu afslátt af heitu vatni til eigin nota í sundlaugar svæðisins. Kom það að hluta til í stað þess að fá árlega greiddan arð frá félaginu. Þegar fjögur af fimm sveitarfélögum á Suðurnesjum tóku þá ákvörðun að selja sig út úr Hitaveitu Suðurnesja færðist eignarhald félagsins yfir til Reykjanesbæjar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbæjar. Eignarhald félagsins fer því ekki lengur saman með veitusvæði HS Veitna. Núverandi eigendur hafa því eðlilega gert athugasemdir við að vatnið sé selt langt undir gjaldskrá til sveitarfélaga sem ekki eru lengur eigendur félagsins og myndi þarf af leiðandi aðeins nýtast einum eiganda en ekki öðrum. Tók stjórn HS Veitna því ákvörðun um að sama gjaldskrá ætti hér eftir að gilda gagnvart öllum sveitarfélögum, bæði úr eigendahópi sem og öðrum.
Rétt er að geta þess að þó nú verði nokkur hækkun á gjaldskrá til sveitarfélaganna á Suðurnesjum, fá þau eftir sem áður 30% afslátt af gjaldskrá enda eru þau stórir og góðir viðskiptavinir HS fyrirtækjanna.
Böðvar Jónsson
Formaður stjórnar HS Veitna