Ásdís Ólafsdótttir: Dagur á Reykjanesi
Þannig er mál með vexti að við fjölskyldan fluttum hingað í Reykjanesbæ síðasta haust og höfum verið heppinn með allar þær breytingar sem urðu á okkar högum. Við fengum góðar vinnur og börnin okkar eru ánægð í skólanum.
En svo var það nú í sumar að annar drengurinn fór í unglingaskiptibúðir á vegum CISV (Children´s International Summer Villages) til Kanada í tvær vikur. Þar gistu þau hjá kanadískum fjölskyldum sem síðan sendu sína sex unglinga hingað til lands og gistu þeir hjá okkur fjölskyldum íslensku unglinganna í tvær vikur. Á þessum tveimur vikum var reynt að hafa bæði skemmtun og fræðslu fyrir þau. Foreldrar tóku að sér að undirbúa og keyra sín börn og annarra eftir þörfum.
Ég fylltist stolti yfir nýja heimabænum okkar og bar upp þá hugmynd að hægt væri að eyða einum degi hér í Reykjanesbæ og skoða allt það sem ferðamönnum væri boðið upp á (Ég hafði séð bækling sem kallaður var „Reykjanes Blue Diamond“ ). Taldi ég til sundlaugina Vatnaveröld, Reykjanesvita, Orkuverið Jörð, Gunnu-hver, víkingaskipið Íslending, Brú milli heimsálfa, Kertagerðina Jöklaljós, Glerblástursverkstæðið Iceglass og Bláa Lónið. Foreldrar tóku vel í þetta og hófst undirbúningur.
Ákveðið var að fara í Bláa Lónið að morgni brottfarardags þannig að það var frá á Reykjanesdeginum. Ég tilkynnti stolt að það væri frítt í sund fyrir börn í Reykjanesbæ og þyrfti því aðeins að greiða fyrir fararstjórana og þá foreldra sem kæmu með. Foreldrar skiptu með sér verkum og kom í minn hlut að kanna opnunartíma og verð á sýningar. Einnig vantaði húsnæði þar sem viðgætum haldið það sem kallað var „þjóðarkvöld“, þ.e. þegar Kanadabúarnir kynntu land og þjóð. Ég hafði heyrt að afmælisveislur hefðu verið haldnar í félagsmiðstöðinni Fjörheimum og leitaði ég eftir að fá afnot af húsinu, sem og fékkst. Foreldrarnir áttu ekki til orð af hrifningu yfir aðstöðu barna og unglinga í Reykjanesbæ og að við skyldum fá þar inni.
En að ferðinni sjálfri; ekki gátum við samið við veðurguðina en ákváðum þegar við hittumst á planinu við Bónus í úrhellisrigningu að við skyldum byrja á sundinu. Í Íþróttamiðstöðinni fengum við að snæða nestið okkar áður en lengra var haldið. Þá ætluðum við að fara í Jöklaljós og Iceglass. Þegar þangað kom var lokað í Jöklaljósum og ég sem hafði lesið á skilti í glugganum „opið alla daga frá 13 – 17.30“ en þegar ég kom að hurðinni sá ég að bak við sumarblóm sem skreyttu framhlið hússins stóð „– nema sunnudaga og mánudaga“. Eflaust hefði ég getað fundið aðstandendur verslunarinnar og reynt að fá þá til opna fyrir okkur en við ákváðum að láta glerverkstæðið duga. Þá átti að fara út á Reykjanes og byrja á Orkuverinu Jörð. Þegar þangað kemur er ekkert sem bendir til þess að þarna sé einhver sem hægt sé að tala við, hvergi opin hurð eða annað. Við stöndum þarna eins og álfar út úr hól, þegar að kemur bíll sem er líka með ferðamenn og höfðu þeir líka ætlað að skoða orkuverið. Bílstjóri þess hóps ákveður að hringja og afla upplýsing um opnunartíma. Hann fær þau svör að eitthvað hafi komið upp á og starfsmaður hafi þurft að yfigefa staðinn en það yrði einhver kominn eftir 45 mínútur. Ákveðið var að nota tímann til að skoða „ Brú milli heimsálfa“. Auðvitað urðu allir rennblautir á göngunni en við létum okkur hafa það og drifum okkur til baka til að upplifa sýninguna „Orkuverið jörð“. Enginn var mættur þegar við komum en við ætluðum að gefa starfsmanninum færi á að komast á staðinn áður farið yrði að hringja. Þegar við höfðum beðið tuttugu mínútur umfram tímann sem gefinn var upp komu hinir ferðalangarnir og vildu þeir fara að hringja strax og ákváðum við að það væri nú í lagi. Þegar næst í þennan sem talað hafði verið við kemur í ljós að það hafði engu verið lofað og starfsmaðurinn væri í sjóferð með útlendinga í hvalaskoðun og því kæmi enginn að opna fyrir okkur.
Það var því ákveðið að ég hringdi heim og fengi mitt fólk til að tína til þurr föt svo sem sokka,buxur, boli og peysur einnig taka með ketilinn svo hægt væri að hita kakó sem við myndum kaupa okkur á leið í Fjörheima. Þar gátum við skipt um föt og hengt blaut för til þerris og gætt okkur á heitu kakói. Önnur dagskrá dagsins gekk vel og það voru þurrir og glaðir ferðalangar sem kvöddust um kvöldið þegar hver hélt til síns „heima“.
Þennan góða dag eiga krakkarnir kannski eftir að minnast sem dags í íslenskri veðráttu eins og hún gerist BEST, roki og rigningu, þrátt fyrir vonbrigði mín og hinna fullorðnu í hópnum. En ég vil að lokum koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku á móti okkur og gerðu þennan dag um Reykjanesið ánægjulegan.
Ásdís Ólafsdóttir Brekkustíg 17 Reykjanesbæ