Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ásakanir um “óábyggilegt viðbragð”
Mánudagur 17. desember 2007 kl. 22:46

Ásakanir um “óábyggilegt viðbragð”

Helst vildi ég ekki standa í reglubundnum bréfaskriftum við fulltrúa Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) um brunavarnarmál á Keflavíkurflugvelli, þó get ég ekki annað en tekið upp pennann þegar Borgar Valgeirsson, ritari LSS geystist fram á ritvöllinn með ásakanir um “óábyggilegt viðbragð”,  lélegar mætingar slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna Brunavarna Suðurnesja (BS), fáfræði og vanþekkingu undirritaðs og að undirritaður fari ekki að lögum í ráðningum starfsmanna BS. 

Í svargrein minni þann 7. nóvember sagði ég lesendum sannleikann um ályktun Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) er varðar öryggisviðbúnað á Keflavíkurflugelli, þ.e.a.s. að ályktunin eigi ekki við rök að styðjast og undirróðurinn er að vekja athygli og hræðslukennd þeirra sem ferðast með flugi um Keflavíkurflugvöll.  Ég tel að í birtingarferlinu hafi ályktun LSS verið slitin frá tilgangi hennar og upphaflegt markmið margra slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem studdu hana í góðri trú hafi farið forgörðum.  Svargrein mína má nálgast á bs.is. 

Upphaf þessa máls er að formaður LSS kom fram í sjónvarpi í lok október og sagði frá ályktuninni og fór heldur mikinn þegar hann lýsti “ástandi” slökkviliðsins og sagði það jafnast á við það versta sem gerist í heiminum.  Kastljósinu var síðan varpað á málið þegar flugvallarstjóri, Björn Ingi Knútsson, fór yfir ályktunina og skýrði frá þeim breytingum sem hafa orðið á svæðinu við brotthvarf hersins í október 2006, en fram að þeim tíma tók öryggisviðbúnaður flugvallarins mið af bæði farþega- og herflugi þ.e.a.s. flugvélum sem fylgdu hernum.  Rök Flugvallarstjóra eru skýr og málefnaleg þar sem hann vísar í að ráðamenn flugvallarins hafa ákveðið að öryggisviðbúnaður slökkviliðsins þar skuli taka mið af staðli nefndum International Civil Aviation Organization (ICAO), sem skilgreinir að viðbúnaður Slökkviliðs Keflavíkurflugvallar skuli standast stig 8.  Öryggisviðbúnaður Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli miðar við að uppfylla stig 9 af 10 stigum ICOA staðalsins, fjöldi slökkviliðsmanna á vakt hverju sinni er líka umfram þá þörf sem um ræðir á Keflavíkurflugvelli og umfram það sem gerist víða á öðrum sambærilegum flugvöllum, að meðtöldum stærri flugvöllum á Norðurlöndunum, eins og kom fram í máli Björns í umræddum Kastljós þætti. 

Borgar, fer enn og aftur með dylgjur í grein sinni á vf.is þegar hann skrifar “Það er ekki hægt að reka alþjóðaflugvöll öðruvísi en að uppfylla lágmörk ICAO sem Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli gerir, en lítið meira.”  Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar gerir gott betur en það að uppfylla lágmörk og, eins og áður sagði, uppfyllir Flugmálastjórn stig 9 af 10 stigum ICOA staðalsins, en ætti samkvæmt kröfum staðalsins að uppfylla stig 8.  Vissulega er það sameiginlegt markmið okkar að hafa viðbragðslið sem öflugast, en það verður að grundvallast á málefnalegri þörf, raunsæi og hagkvæmni liðsheildar á svæðinu, ekki hræðsluáróðri forsvarsmanna kjarafélags LSS.  Slökkviliðin á svæðinu búa yfir miklum mannauð og tækjakosti til björgunar- og slökkvistarfa, þau hafa sýnt mikinn metnað og þetta er það sem skiptir máli.

Eitthvað hefur Borgar misskilið skrif mín því  hann skrifar “Sigmundur fullyrðir einnig að há lágmarksmönnun slökkviliðsins hafi einungis verið vegna orrustuflugvélanna.”  Hið rétta er að ég skrifaði “Þegar mest var voru 15 orrustuþotur ásamt fylgivélum staðsettar á Keflavíkurflugvelli, en þess vegna voru 15 manns á vakt í slökkviliðinu þar.  Jú hverjar voru “fylgivélar” hersins, ég get upplýst um nokkrar.  Á Keflavíkurflugvelli voru staðsettar m.a. P-3 Orion kafbátaleitarvélar, KC-135 flugeldsneytisvél, EA-3 radarflugvélar og þá komu reglulega stórar C-5 vöruflutningavélar og aðrar minni C-141, einnig má nefna þyrlur og fylgivélar þeirra bæði C-130 og C-160, að auki var herinn með reglulegt farþegaflug til og frá Keflavíkurflugvelli.  Nú er liðið á annað ár síðan þessar vélar fóru af flugvellinum og kröfurnar því allt aðrar; samt er lágmarksfjöldi slökkviliðsmanna á vakt 10. 


Varðandi ásakannir í minn garð um að ég viti ekki muninn á “flugu og fíl” og að ég sé ekki að fara að lögum vil ég upplýsa að ég hef starfað við brunamál í nær 22 ár, árið 1996 lauk ég BS prófi í eldvarnar- og öryggistæknifræði frá Oklahóma háskóla, en þá tók ég stöðu slökkviliðsstjóra BS sem ég hef starfað af heilindum í í nær 12 ár.  Slökkvilið BS hefur aldrei fyrr verið eins vel tækjum búið og mannauður liðsins er mikill.

Það sem er þess valdandi að ég tók upp pennann er aðförin að Brunavörnum Suðurnesja þ.e.a.s. fullyrðingar um óábyggilegt viðbragð.  Ég tek undir það að ekki er tryggt að menn á frívakt mæti í útköll, en við höfum þó áratuga reynslu af skjótum og góðum viðbrögðum slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna BS.
Skýrslur um viðbragð eru til.  Þá vil ég benda á að virkjun og viðbragð Flugslysaáætlunar fyrir Keflavíkurflugvöll byggir á að stór hluti viðbragðsaflsins mæti af frívakt—margir af æðstu stjórnendum, allur björgunargeirinn og viðbótarafl í lögreglugeiranum byggir á boðun manna á frívakt.
 
Ég tel að mannhald hjá BS sé ekki síðra, jafnvel ábyggilegra því þetta fyrirkomulag hafa strákarnir mínir ráðið sig til og stundað í áraraðir, þeir gera sér grein fyrir “þörfinni” og reynslan er sú að við byggjum útkallsstyrk okkar á traustu mannhaldi BS.  Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa staðist okkar björtustu væntingar í mætingum þegar stórbrunar verða og þegar fjöldi samtímaútkalla og annarra “mannfrekra” bráðatilfella kalla á okkur. 
Starfsmenn BS eru traustur stólpi í öryggi þessa samfélags og mikill stuðningur í áföllum á Suðvestursvæðinu.  Samfélagið treystir starfsmönnum BS, enda hafa þeir með verkum sínum áunnið góðan orðstír þess, þeir eru þess verðugir og verða alltaf  hluti af “viðbúnaði” fyrir Keflavíkurflugvöll. 

Sigmundur Eyþórsson
slökkviliðsstjóri BS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024