Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 11. apríl 2002 kl. 14:24

Árni Sigfússon tekur fram gönguskóna!

Árni Sigfússon bæjarstjóraefni sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ ætlar að kynna sig og stefnuskrá flokksins m.a. með því að ganga í hús og heilsa upp á kjósendur. Þetta kom m.a. fram við opnun kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins sl. föstudag.Á Vísi.is í morgun segist Árni hafa gert þetta áður þegar hann var í kjöri til borgarstjórnar í Reykjavík. Stefnt er að því að kynna stefnuskrá flokksins í Reykjanesbæ í næstu viku.


Árni segist ekki heyra annað en að þessi áformaða kynningaraðferð mælist vel fyrir meðal íbúa bæjarins og flokksmanna. Í það minnsta telur Árni að heimamenn séu spenntir fyrir því að fá sig í heimsókn. Hins vegar sé það ákvörðun þeirra í hverju tilviki fyrir sig hvort þeir hafa mikinn eða lítinn tíma til að ræða málin við sig þegar að því kemur. Aðspurður hvort þessi aðferð sé af erlendri fyrirmynd segist hann ekki þekkja það. Allavega segist hann vera mikið lesinn í erlendri kosningaaðferðafræði auk þess sem þetta hafi ekki verið kennt í Stjórnunarskólanum þegar hann var þar. Hann telur að þessi aðferð sé bara sjálfsögð til þess að hitta fólk og kynna sig og þau mál sem flokkurinn setur á oddinn.

Árni segir að kosningabaráttan leggist bara vel í sig. Hins vegar séu frambjóðendur í meira návígi við kjósendur í Reykjanesbæ heldur en í margmenninu í borginni. Af þeim sökum eiga menn að geta náð beint til fleira fólks en gengur og gerist í höfuðborginni. Hann segir að flokkurinn stefni að því að tryggja í sessi fimmta fulltrúa sinn sem þeir náðu við síðustu kosningar. Hann segir að menn hafi ekki lýst því yfir að reyna að ná meirihluta í bæjarstjórninni. Fjölskyldan Árna hefur fest kaup á nýju húsnæði að Heiðargili eftir að hafa selt íbúð sína í borginni. Iðnaðarmenn hafa verið að vinna í nýja húsnæðinu. Bundnar eru vonir við að þeir ljúki vinnu eftir hálfan mánuð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024