Árni Sigfússon ekki á leið í varaformannsslag né í borgarmálin
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, æltar ekki að taka þátt í varaformannsslag á komandi landsþingi Sjálfstæðisflokksins. Leitað hafði verið til Árna vegna þess. Í samtali við Víkurfréttir nú áðan sagði Árni þetta:
„Ég hef þegar tilkynnt Geir H. Harde og Þorgerði Katrínu að ég styðji þau til forystu í flokknum. Við Geir erum félagar og vinir frá því við unnum saman í ungliðastarfinu og ég treysti honum best til að leiða Sjálfstæðisflokkinn til farsælla verka. Við Þorgerður höfum við átt mjög gott samstarf frá því hún hóf afskipti af landsmálapóitíkinni. Ég veit að þau Geir geta unnið vel saman og myndu skapa frábært forystulið. Mitt hltuverk er að styðja þau“.
Orðrómur um það að leitað hafi verið til Árna um að koma aftur að borgarmálum var uppi í síðustu viku. Árni er ekki á leiðinni í borgina að nýju:
„Hvort ég ljái máls á að blanda mér í forystubaráttu sjálfstæðismanna í Reykjavík er svarið mjög skýrt: Mér þykir mög vænt um samfélagið mitt hér í Reykjanesbæ. Hér var mér treyst fyrir velferð og uppvexti bæjarfélagsins og ég vil helga mig þeim störfum áfram. Þótt ég eigi marga stuðningsmenn í Reykjavík sem nú draga fram hver hafi náð lengst gegn sameinuðum R-lista vil eg tala skýrt til þeirra: Hér var mér treyst fyrir mikilvægu verkefni og ég hleyp ekki frá því. Hér erum við rétt að byrja. Það kemur því ekki til greina að ég yfirgefi þetta samfélag fyrir verkefni í Reykjavík,“ sagði Árni Sigfússon í samtali við Víkurfréttir.