Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 23. janúar 2002 kl. 21:22

Árni Sigfússon: Að láta verkin tala

Ég hef tekið að mér að leiða lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Þótt verk mín séu vel kunn þeim sem treystu mér til forystu í þessu áhugaverða verkefni, langar mig að gera þeim sem minna þekkja til mín örstutta grein fyrir nokrum baráttumálum mínum á liðnum árum, sem tengjast pólitík, neytendamálum og fyrirtækjarekstri. Ég fór ungur inn í póltík, var m.a. formaður Heimdallar og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Eftir að hafa lokið mastersnámi í stjórnun og opinberri stjórnsýslu frá Bandaríkjunum var ég kosinn í borgarstjórn 1986 og starfaði þar í meirihluta til ársins 1994 en leiddi þá minnihlutann næsta kjörtímabil.

Vinna í þágu aldraðra og sjúkra
Sem formaður Félagsmálaráðs leiddi ég endurskipulagningu á öldrunarþjónustu borgarinnar þar sem heimaþjónusta veitt frá þjónustumiðstöðvum í hverfum. Undir minni forystu var unnið mat á þörf aldraðra Reykvíkinga fyrir hjúkrunarheimili og þjónustu í heimahúsum. Þannig var stuðlað að auknu jafnræði allra aldraðra gagnvart þjónustunni.
Í samvinnu við stjórnendur Borgarspítalans innleiddi ég nýtt stjórnskipulag og náðum við mjög jákvæðum árangri í rekstri, þar sem markmiðið var að geta sinnt flerium fyrir minni tilkostnað. Árangurinn var ótvíræður og var umfjallað í fjölmiðlum.

Fjölskyldumál
Málefni fjölskyldunnar hafa verið mér hugleikin. Markmið okkar er að skapa heilbrigt og öruggt umhverfi fyrir fjölskyldur. Þar má nefna áherslu á heildaruppbyggingu í dagvistarmálum og innleiðingu Lions quest námsefnisins í alla grunnskóla. Þá hef ég skrifað bók um uppeldismál, sérstaklega ætlaða feðrum.

Eðlileg rekstrarskilyrði fyrirtækja
Ég var hvatamaður virkrar stefnumótunar Reykjavíkurborgar í atvinnumálum með það að markmiði að skapa fyrirtækjum góð og eðlileg rekstrarskilyrði. Ég hafði frumkvæði að rýmkun á opnunartíma verslana í borginni sem var verulega takmarkaður fyrir aðeins 15 árum.

Barátta fyrir betri grunnskólum
Ég lagði grunn að skipulegri umræðu um mat á gæðum skólastarfi í grunnskólum borgarinnar og lagði áherslu á rannsóknar- og þróunarverkefni. Þá var hafinn undirbúningur að einsetningu grunnskóla borgarinnar, löngu áður en það var sett í lög. Fyrsta stig í þeirri áætlun var svonefndur heilsdagsskóli sem skyldi tryggja börnum aðstoð og aðhlynningu og aðstoð við heimanám fyrir eða eftir skóladag í tvísettum skólum. Mitt megin markmið var að kennsla reykvískra skólabarna yrði á meðal þess sem best gerist í heiminum. Nú á ég þessa ósk fyrir Reykjanesbæ.

Baráttan um borgina
Ég hef sjálfur verið frambjóðandi í 9 pólitískum kosningum og staðið uppi sem, sigurvegari eða í sigurliðinu í 7 þeirra. Þótt ég hafi í flestum tilvikum verið sigurvegarinn finnst mér ég jafnvel hafa lært meira af þeim tveimur skiptum sem ég hef boðið lægri hlut. Það skyldi enginn fyrirfram gefa sér niðurstöðu í kosningum. Það geri ég ekki.
Í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1994, sóttist ég eftir öðru sæti á eftir Markúsi Erni þáverandi borgarstjóra, ásamt 4 öðrum frambjóðendum. Ég hlaut yfirburðasigur í það sæti.
72 dögum fyrir kosningarnar sagði Markús Örn af sér sem borgarstjóri og vildi úr forystusætinu. Skýringin var fólgin í mjög veiku fylgi flokksins sem hafði þá verið að mælast um 30-36% í skoðanakönnunum. Margir héldu því fram að borgin væri koltöpuð og engin leið væri til að rétta stöðuna við á svo skömmum tíma. Sjálfstæðismenn í Reykjavík urðu þá einhuga um að ég tæki við forystunni og freistaði þess að snúa stöðunni við. Þegar talið var uppúr kjörkössunum höfðum við hlotið 47,3% fylgi en R-listinn hafði betur. Margir ræddu þá um verkefnið sem persónulegan sigur fyrir mig, þrátt fyrir að R-listinn hefði náð völdum. R-listinn hélt velli í kosningunum 1998 en ég hafði tilkynnt að yrði sú raunin vildi ég að annar tæki við forystu minnihlutans.

Besta ár í sögu Tæknivals.
Þegar ég lét af borgarfulltrúastarfi óskaði Frosti Bergsson, stjórnarfomaður Opinna kerfa eftir að ég kæmi með honum í Tæknival, hann yrði stjórnarformaður og ég framkvæmdastjóri, sem ég tók að mér. Einfalt er að lesa ársskýrslur Tæknivals (www.atv.is) sem kynna stöðuna ár fyrir ár. Þær sýna að árin á undan hafði Tæknival verið að tapa og eiginfjárstaða var orðin mjög léleg. Við náðum fram talsverðum endurbótum strax á seinni hluta árs 1999. Árið 2000 reyndist svo vera besta ár í sögu Tæknivals. Hagnaður var þá mestur, sama hvort mælt var fyrir eða eftir fjármagnsliði og sölu eigna. Eiginfjárstaðan tók að rétta við. En fleira jákvætt gerðist: Tæknival hlaut 2. sæti sem "Fyrirtæki ársins" í könnun VR á meðal stærstu fyrirtækjanna. Það varðaði traust starfsmanna í garð fyrirtækis. Tæknival hafði vart komist á blað áður.
Árið 2001 byrjaði strax illa. Sala tók að dragast verulega saman og mikil erlend lán, sem héldu uppi yfir 4 milljarða kr. veltu, átti eftir að magnast í neikvæðri gengisþróun mestan hluta ársins. Um vorið ákváðu eigendur að sameina Tæknival við Aco sem einnig var í mjög erfiðri stöðu.
S.l. vor tjáði ég við Frosta Bergssyni að ég hyggðist ekki taka annan snúning í endurskipulagningu með nýjum eigendum og stjórnendum með aðrar áherslur. En við töldum mikilvægt að ég fylgdi þessum breytingum úr hlaði þar sem við óttuðumst að flótti hlypi í okkar besta fólk ef ég færi frá á einmitt þeim tímapunkti þegar endurfjármögnun stóð yfir. Ég lauk svo störfum í október s.l.

Barátta í þágu bifreiðaeigenda
Ég tók við formannsstarfi í FÍB árið 1994. Þá voru tæplega 6 þúsund félagsmenn og skuldir farnar að íþyngja starfinu. Í dag eru félagsmenn á 18. þúsund og eiginfjárstaðan hefur aldrei verið eins sterk. Á þessum tíma höfum við tekist ótrauð á við trygginga- og olíurisana um leið og við höfum skapað afar sterk hagsmunasamtök fyrir bifreiðaeigendur. Við höfum haft uppi virkt aðhald á bensínverð, velgt tryggingafélögunum undir uggum með því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma á virkri samkeppni, án þess að fara sjálf út í tryggingabransann. Það gerðum við með útboði sem skilaði frábærum árangri í 6 ár en er í lægð sem stendur. Við höfum styrkt tækni- og lögfræðiráðgjöf fyrir félagsmenn, boðið sérstaka aðstoð við félagsmenn undir nafninu "FÍB aðstoð", og erum orðin virkari hluti af tugmilljóna neti bifreiðaeigendasamtaka í Evrópu og Bandaríkjunum. Félagið hefur aldrei verið öflugra en nú og nýkjörinn gjaldkeri getur staðfest það. Gjaldkerinn er engin annar en Ástríður Sigurðardóttir guðfræðingur og íbúi í Reykjanesbæ. Hún er frábær samstarfsmaður minn.

Tökum höndum saman
Í öllum verkefnum mínum þekki ég bæði bæði mistök og sigra og tel það mikilvæga reynslu inn í næstu verkefni. Sá sem vill koma hreyfingu á hlutina verður að taka áhættur og mætir oft andstöðu. Barátta mín hefur bæði aflað mér stuðningsmanna og andstæðinga, og oft algjörlega óháð flokkslínum.

Mörgum er auðvelt að flytja útflúraðar ræður um "möguleikana". En það er getan til að koma einhverju í framkvæmd sem menn eiga að mælast af. Á vettvangi sveitarstjórna skiptir miklu að þekkja til þeirra mála og kunna að leiða æskilega þróun og þjónustu inn í samfélagið, að hafa skýra sýn og kunna að að miðla henni á meðal bæjarbúa. Þá þarf þor til að framkvæma. Mikilvægast er þó traustið, að bæjarbúar viti að þeir geti treyst orðum okkar, að við framkvæmum eins og við segjum. Fyrir þessu vil ég standa.

Árni Sigfússon,
Leiðtogi lista sjálfstæðismanna fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024