Árni Johnsen ræður ekki aðstoðarmann
Mig setti hljóðan þegar tilkynnt var um nýja stétt ríkisstarfsmanna fyrir skemmstu eða svokallaða aðstoðarmenn þingmanna. Þegar ég gegndi þingmennsku um 4 ára skeið lét ég nokkur orð falla um starfsfyrirkomulag þingsins. Í fyrsta lagi taldi ég starfstíma þings ótrúlega skamman yfir árið en starfstíminn nær einungis yfir 50% ársins. Í annan stað vildi ég auka áhrif þingsins með gleggri aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds og þriðja lagi bendi ég þáverandi forseta Alþingis á ýmsar leiðir sem gætu sparað umtalsverðar fjárhæðir hjá sömu stofnun eða Alþingi. Ég benti á sparnað sem hægt væri að ná fram með úthýsingu tölvukerfa, að tímabært væri að leggja niður svokallaða VES nefnd Alþingis en hún fer 2 ferðir árlega til Parísar í algera erindaleysu og margt fleira. Ég var hálfpartinn púaður niður vegna tillagna sem leitt gætu til sparnaðar.
Bruðl
Árni Johnsen alþingismaður hefur tilkynnt að hann muni ekki ráða aðstoðarmann. Þessi afkastamikli þingmaður á hrós skilið fyrir vikið. Annað væri algert bruðl, hann veit það, ég veit það og öðrum þingmönnum er fullkunnugt um það. Vegna þessa leyfi ég mér sem sjálstæðismaður í suðurkjördæmi að gagnrýna þingmann Sjálfstæðisflokksins úr Reykjanesbæ, Björk Guðjónsdóttur. Hvað hefur hún að gera með aðstoðarmann? Henni vær nær að virkja sig sjálfa enda varla hægt að segja að hún verið aðsópsmikil þau bráðum 2 ár sem hún hefur setið á þingi. Þetta er algjört grín svo ekki sé meira sagt. Til að bæta um betur þá réð hún Halldór Leví Björnsson útgefanda Suðurnesjatíðinda sem aðstoðarmann. Ég hvet þingmanninn okkar eindregið til að endurskoða afstöðu sína til þessa máls og vera fyrstur þeirra þingmanna sem ráðið hafa sér aðstoðarmann til að ríða á vaðið með breytingar. Sama gildir um Grétar Mar Jónsson þingmann Frjálslyndra og fjölmarga fleiri þingmenn sem brenna upp fé skattborgara með þessari vitleysu. Samtals eru þetta tugir milljóna króna af skattfé almennings sem fara í þessa nýju og algerlega óþörfu ráðstöfun.
Gunnar Örn Örlygsson
Fiskútflytjandi Reykjanesbæ