Árni býður sig fram í Suðurkjördæmi
Árni Mathiesen fjármálaráðherra hefur ákveðið að bjóða sig fram til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi. Þetta tilkynnti ráðherra á fundi á Kaffitári í Reykjanesbæ klukkan þrjú í dag.
Árni hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991, fyrst í Reykjaneskjördæmi og nú síðustu fjögur ár í forystusæti í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum svokallaða.
Orðrómur hafði verið á kreiki um að hann hygðist bjóða sig fram í Suðurkjördæmi þar sem talið er að varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, geri tilkall til forystu í Suðvesturkjördæmi.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú með þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi, þau Drífu Hjartardóttur, Guðjón Hjörleifsson og Kjartan Ólafsson.
Drífa Hjartardóttir tilkynnti um miðjan dag í dag að hún gæfi kost á sér í 2. Sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Mynd: Vasar ríkissjóðs hafa aldrei verið eins djúpir eins og eftir síðasta uppgjör, á annað hundrað milljarða í plús. Hvort Árni læðir hér hendinni ofan í "rískivasann" að sækja aur fyrir kaffi í Kaffitári eða bara að sækja símann sinn, skal ósagt látið. VF-mynd: Hilmar Bragi