Árna sem bæjarstjóra
– Böðvar Jónsson skrifar
Síðustu ár hafa verið mikill uppbyggingartími í Reykjanesbæ. Hér hefur íbúum fjölgað meira en í nokkru öðru sveitarfélagi á landinu. Til þess að mæta þessari fjölgun hefur þurft að fara í kostnaðasamar framkvæmdir. Skólar og leikskólar hafa verið byggðir, íþróttamannvirki, hjúkrunarheimili, menningarhús, mörg ný íbúðahverfi og svo mætti áfram telja. Allt til að mæta mikilli eftirspurn fólks sem hér vill búa.
Áhersla í innra starfi hefur snúið að skólum og umhverfi þar sem árangur grunnskólanna hefur farið úr því að vera meðal þeirra lægstu á landsvísu í að vera meðal þeirra bestu. Umhverfi hefur tekið stakkaskiptum og flestir gestir sem sækja Reykjanesbæ heim tala um ásýnd bæjarins, umhirðu og fegrun. Íþrótta-, menningar- og tómstundastarf er eins gott og á verður kosið og aðstaða hefur verið byggð fyrir eldri borgara. Atvinnuverkefnin eru mörg orðin að veruleika og önnur í rásblokkunum.
Þessar miklu framfarir hafa allar orðið undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Síðustu 12 ár hefur Árni Sigfússon verið í stefni skútunnar og stýrt henni af mikilli festu og þrautseigju. Hann er vakinn og sofinn yfir þeim tækifærum sem við höfum og engan þekki ég annan sem leggur jafn mikla rækt, alúð og kraft í við starf sitt. Ég treysti engum betur til að sinna þeim verkefnum áfram og fylgja þeim í örugga höfn.
Ef íbúar vilja Árna áfram sem bæjarstjóra verður það ekki tryggt nema með því að setja X við D á laugardag.
Böðvar Jónsson
Bæjarfulltrúi og samstarfsaðili Árna síðustu 12 ár