Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Áreiðanleg uppbygging í Helguvík?
Tölvugerð teikning af útliti hluta verksmiðju-bygginga í Helguvík.
Mánudagur 23. nóvember 2015 kl. 14:11

Áreiðanleg uppbygging í Helguvík?

Fyrirsvarsmenn Atlantic Green Chemicals ehf., hafa fylgst með umræðu um málefni Helguvíkur, enda hefur félagið haft fyrirætlanir um uppbyggingu þar og hefur verið sett í óvenjulega stöðu að gæta þeirra hagsmuna. Umræðan hefur leiðst á sérstakar brautir að áliti AGC ehf. og má þar nefna  grein bæjarfultrúa á vef Víkurfrétta frá 8. september sl., undir heitinu; ,,Við þurfum betur launuð störf“ og skrif í kjölfarið.

Efni greinarinnar um uppbyggingu í Helguvík, fjölbreytileg störf og mengunarmál gera það að verkum að AGC ehf. vill koma sjónarmiðum félagsins að. Niðurlagsorð greinarinnar um að ekki skuli gera lítið úr því sem undirbúið hefur verið á síðustu árum, kallar á umfjöllun um það sem ekki er nefnt í greininni um uppbyggingu í Helguvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tölvulíkan og afstaða verksmiðju AGC við Helguvíkurhöfn.

AGC ehf. hóf viðræður við forsvarsmenn Reykjanesbæjar um aðstöðu vegna uppbyggingar Lífalkóhól- og glýkól verksmiðju, á árinu 2011. Viðtökur sem félagið fékk hjá sveitarfélaginu voru jákvæðar. Í kjölfar funda með sveitarfélaginu á árinu 2011 var AGC ehf. veitt vilyrði fyrir lóðinni að Berghólabraut 4. Á grundvelli þess loforðs var hafið opinbert ferli umhverfismats vegna fyrirhugaðrar starfsemi. Í því umhverfismati er gerð grein fyrir staðsetningu verksmiðjunnar á Berghólabraut 4, en sú staðsetning er nauðsynleg, vegna nálægðar við höfn, auk þess að framleiðslan gerir ráð fyrir nýtingu varmaorku sem fellur til við rekstur kísilvers að Stakksbraut 9. Skipulagsstofnun afgreiddi  álitsgerð sína vegna mats á umhverfisáhrifum AGC fyrir lífalkóhól og glýkólverksmiðju við Helguvík þann 2. mars 2012.

Álit Skipulagsstofnunar var jákvætt, enda markmið framkvæmdarinnar að reisa og reka Lífalkóhól- og glýkólverksmiðju, sem nýtir hvort tveggja; endurnýjanlegt hráefni og umhverfisvænt rafmagn ásamt afgangs varmaorku sem fellur til á svæðinu. Áætlanir gera ráð fyrir að verkefnið skapi við fullbyggða verksmiðju 100-150 bein störf, en í fyrsta áfanga yrðu til um 25-30 störf, m.a. fyrir verk- og tæknifræðinga, efna- og viðskiptafræðinga, vél- og rafvirkja, starfsfólk á rannsóknarstofu o.fl.  

Uppbygging verkefnis AGC ehf. fór í bið árið 2012, enda var forsenda verksmiðjunnar að kísilver risi á Stakksbraut 9 og óvissa um þau áform þá. Á þessum tíma stóð Reykjaneshöfn fyrir metnaðarfullum hugmyndum um uppbyggingu efnavinnslugarða í Helguvík. Þær hugmyndir tóku m.a. tillit til uppbyggingar AGC ehf. og kísilvers og að myndast gæti fyrirtækjaklasi sem styrkti uppbyggingu fjölbreytts orku- og framleiðsluiðnaðar á svæðinu. Fyrirsvarsmönnum AGC ehf. er ekki kunnugt hvenær fallið var frá þessum hugmyndum.
Þegar uppbygging kísilvers á Stakksbraut 9 á vegum United Silicon varð að veruleika og tímabært fyrir AGC ehf. að hefja undirbúning verkefnisins í árslok 2014, varð félaginu ljóst að væntanlegri lóð félagsins hafði einnig verið lofað undir hugsanlegt kísilver Thorsil. Ekkert samráð var haft við AGC ehf. um þá ráðstöfun eða tilkynnt með einum eða öðrum hætti um sinnaskipti bæjaryfirvalda varðandi nýtingu lóðarinnar. AGC ehf. hefur síðan óskað eftir lóðinni, en verið hafnað. AGC ehf hefur einnig sótt  um framkvæmdaleyfi en því var hafnað með svarbréfi sem einkenndist af nokkrum höstugleika. AGC ehf. hefur verið tilbúið að hefja framkvæmdir nú þegar og greiða þá lóðargjöld, sem nema hundruðum milljóna.

Afstöðumynd á fyrirhugaðri lóð við hlið kísilverksmiðju United Silicon.

Það er í öllu falli von fyrirsvarsmanna AGC ehf. að ennþá geti komið til þess að félagið reisi verksmiðju að Berghólabraut 4, enda er upphaf slíks rekstrar ekki háð verulegri óvissu um aðgang að raforku. Slík starfsemi felur í sér meiri fjölbreytni vel launaðra starfa en bygging tveggja kísilvera í Helguvík og er liður í fjölbreytilegri atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Starfsemin felur í sér óverulega mengun í samanburði við kísilver og  eykur þar með  möguleika á fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu síðar sem rúmast innan opinberra mengunarviðmiða.
 
Þess ber að geta að dómsmál er nú rekið um rétt AGC ehf. til lóðarinnar Berghólabraut 4. Máli AGC ehf. hefur verið vísað frá héraðsdómi og beðið er eftir dómi Hæstaréttar um réttmæti þeirrar niðurstöðu.  Hvað sem niðurstöðu þess máls líður eða hugsanlegu áframhaldi málsins í öðrum búningi, eru sinnaskipti bæjaryfirvalda á uppbyggingu atvinnurekstrar félagsins í Helguvík ráðgáta. Að áliti fyrirsvarsmanna AGC ehf. er hins vegar mikilvægt að rangt er að stilla mögulegri starfsemi Thorsil upp sem haldreipi uppbyggingar í Helguvík, heldur er hún þvert á móti fyrirstaða fyrir áreiðanlegri uppbyggingu sem þegar hafa verið skapaðar aðstæður fyrir með umhverfismati verksmiðju AGC ehf.

Jón Jónsson hrl. og lögmaður AGC ehf.