Arðinum og arfinum eytt fyrirfram
Rekstur veitufyrirtækja er háð ströngum lögum og reglum. Þær leiðir og leiðslur sem þeim er ætlað að starfa eftir sníða þeim þröngan stakk hvað starfsemina varðar. Það er gert í almannaþágu. Ársreikningur HS Veitna segir okkur að það sé vel rekið fyrirtæki, að allar þær leiðslur sem þeir bera ábyrgð á séu í lagi. Engar stíflur eða lekar sem alvarlegir megi teljast. Allt rennur í réttar áttir. Þeir bera ábyrgð á leiðslukerfinu að lóðarmörkum og láta eigendum húsa eftir viðhaldið innandyra. Kerfið innandyra hjá einum eiganda HS Veitna virðist þó illa skemmt ef marka má ársreikning HS Veitna og þar lekur ýmist ekki eða rennur í öfugar áttir.
Rekstur sveitarfélaga er einnig háð lögum og reglum. En svigrúm er gefið hvaða leiðir eru farnar, og hvernig leiðslurnar eru lagðar. Núverandi stjórnendur Reykjanesbæjar virðast hafa aðhyllst þá skoðun að algjört frelsi væri lausnin. Að allt það sem lyti ákveðnum reglum eða leiðum væri af hinum vonda. Að leiðslur og pípur sem stýrðu streyminu væru ekki nauðsynlegar innandyra hjá þeim.
Þeir mölbrutu öll rör og pípur og horfa nú á árangur gjörða sinn. Þar sem þeir standa í flaumnum upp í mitti og kítta fyrir gluggana svo ekki leki út telja þeir réttu lausnina vera að senda út fréttatilkynningar um milljarðahagnað hér og milljóna hagnað þar . En endurskoðandi HS Veitna virðist þó telja ástæðu til að benda á að þrátt fyrir frelsi og gott flæði innandyra hjá Reykjanesbæ skili sá vatnskattur sem þeir hafa innheimt af bæjarbúum sér ekki í frjálsu flæði til HS Veitna ,sem lögum samkvæmt verða þó að standa skil á skattinum . Lítum á skýringu endurskoðandans.
Ársreikningur HS Veitna
„28. Tengdir aðilar Skilgreining tengdra aðila
Eigendur með yfir 25% eignarhlut, HS Orka, stjórnarmenn, stjórnendur og félög í þeirra eigu teljast vera tengdir aðilar félagsins.
Félagið seldi eigendum með yfir 25% eignarhlut vörur og þjónustu fyrir 123 millj.kr. á árinu 2010 (2009: 112 millj.kr), krafa á eigendur með meira en 25% eignarhlut er 40 millj. kr í árslok 2010(2009: 34 millj. kr). Einnig er krafa vegna vatnsskatts fyrir árið 2010 alls um 126 millj. kr ( sem eigandi annast innheimtu á ) þannig að heildarkrafa er kr 166 millj. kr.“....
Þessi skýring endurskoðandans þýðir á mannamáli að Reykjanesbær sem eini aðilinn í HS Veitum sem á meira en 25% í HS Veitum hefur ekki skilað þeim vatnsskatti sem hann hefur innheimt með fasteignagjöldum. Þ.e. hann innheimtir vatnsskatt af íbúunum en skilar honum ekki til þess aðila sem á að fá skattinn sem er HS veitur. Þetta er í raun álíka og að skila ekki virðisaukaskatti eða öðrum gjöldum sem einn aðili innheimtir fyrir annan. Vatnsskatturinn hefur því horfið í hítina og nú þegar við eigum að fá greiddan myndarlegan hagnað dugar hann ekki fyrir vanskilum bæjarins. Arðurinn af hagnaið HS Veitna fer nú í greiðslu skuldar sem menn höfðu talið að væri þegar greidd.
Fljótt á litið virðist dæmið líta svona út
Arðgreiðslur HS Veitna eru kr. 250 milljónir. Þar af ætti Reykjanesbær að fá um 67% eða kr. 167 milljónir, fjármagnsskattur 20% dregst frá þeirri upphæð og ætti bærinn þá að fá greiddar kr. 136 milljónir. Það hefði komið sér vel að fá þá greiðslu núna en því miður eru vanskil bæjarins við HS veitur 166 milljónir. Niðurstaðan er því sú að í stað þess að bærinn væri nú að fá 136 milljónir í sinn tóma kassa situr hann enn uppi með kr. 30 milljónir í vanskil við HS Veitur. Arðinum hefur verið eytt. Arðgreiðsluna hefði til að mynda mátt nota til byggingar nýs hjúkrunarheimilis nú.
Fjármála(ó)stjórn meirihlutans
Vonir væntingar og vandaðar fyrirsagnir verða okkur ekki til bjargar nú. Staðreyndirnar liggja ljósar fyrir. Endurfjármögnun skulda bæjarins með stöðugt hækkandi vöxtum getur ekki gengið til lengdar hjá bæjarfélagi sem ekki hefur getað greitt skuldir með lægri vöxtum. Við þurfum hjálp. Við skulum hengja bjöllunna á köttinn svo hann valdi ekki meiri skaða en orðið er.
Óvissan er allstaðar. Skuldir hafnarinnar,.. Fjárhagur bæjarsjóðs,.. Framtíð Fasteignar,.. og uppbygging álvers í Helguvík. Verst er að vita að öll sú óvissa sem skapast hefur er sökum aðgerða og aðgerðaleysis þeirra meirihluta sem stjórnað hafa bænum undanfarin ár. Yfirráð yfir nýtingu auðlindanna er nú annarra höndum og skuldirnar eru til komnar sökum þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið. Þar er ekki við aðra að sakast, hvorki ríkistjórn né afstöðu einstakra þingmanna eins og bæjarstjórinn gefur í skyn í grein sinni hér á VF í fyrr í dag. Vandamálið er heimatilbúið.
Það þýðir lítið eins og meirihluti sjálfstæðismanna vill nú að við sýnum samstöðu út á við, þegar ljóst er að vandamálið kemur innanfrá. Það væri ábyrgðarleysi. Fjármál og framtíð bæjarins er ekki einkamál meirihlutans. Það þýðir ekki lengur að róa bæjarbúa með að eignir standi á móti skuldum. Þeir vita að einfaldasta leiðin er að greiða skuldirnar, þá skiptir ekki máli hvort eignir séu á móti.
Forystumenn sjálfstæðisflokksins hafa nú í níu ár haldið því fram að aðrir en þeir kunni ekki með peninga að fara. Staðreyndirnar tala sínu máli. Allt hefur verið selt , en nánast ekkert verið greitt af skuldum bæjarins, sem nú eru endurfjármagnaðar með miklum vöxtum. Innheimtum sköttum hefur ekki verið skilað og stöðugt bætist í. Er ekki komin tími til að horfast í augu við ástandið eins og það er samþykkja að fram fari rækileg úttekt á fjármálum bæjarins og þeim ákvörðunum sem leitt hefur til þeirrar stöðu sem uppi er í dag. Að leiða hið sanna í ljós.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson