Anna Margrét býður sig fram í 1.- 3. sæti Samfylkingarinnar
Anna Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel, býður sig fram í 1.-3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Framboð hennar er fyrst og fremst grundvallað á þeirri þekkingu og reynslu sem hún hefur af sveitarstjórnar- og byggðamálum bæði hér á landi og innan Evrópusambandsins. Anna Margrét hyggst beita sér sérstaklega fyrir eflingu atvinnulífs í dreifðari byggðum landsins og um leið bættri afkomu heimilanna. Hún hyggst jafnframt tala fyrir þeim margþættu tækifærum sem sveitarfélögum bjóðast á vettvangi Evrópusambandsins.
Anna Margrét er landfræðingur að mennt og hefur meistarapróf í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur starfað sem kennari, ferðamálafulltrúi Vestfjarða og Reykjavíkurborgar og gegnt ýmsum öðrum ábyrgðarstörfum hjá Reykjavíkurborg. Sveitarstjórnar- og byggðamál hafa ávallt verið henni hugleikin, jafnt í námi sínu og starfi hér á landi sem og í störfum sínum í Brussel frá því skrifstofa sveitarfélaganna var sett á laggirnar þar árið 2006. Anna Margrét er gift Þorgeiri Ólafssyni og eiga þau samtals fimm börn.
Anna Margrét hefur opnað vefsíðuna: www.annamargret.is
Anna Margrét Guðjónsdóttir um áherslur sínar í stjórnmálum: „Ég tel gífurlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að horfa fram á veginn og hefja kröftugt uppbyggingarstarf nú þegar fremur en að hörfa til eldri umgjarðar fjármálaþjónustu og atvinnulífs. Við þurfum fyrst og síðast að skapa atvinnulífinu nýtt svigrúm og ný tækifæri til að nýta krafta þeirra fjölmörgu sem misst hafa vinnuna undanfarna mánuði. Við eigum að fara í opinberar og mannaflsfrekar framkvæmdir, aðstoða einstaklinga með góðar hugmyndir við að stofna fyrirtæki, þróa nýjar afurðir í matvælaframleiðslu með áherslu á gæði og hollustu, efla ferðaþjónustu sem byggir á náttúru, menningu og hreinni orku, byggja upp þekkingarmiðstöðvar þar sem við tengjum saman rannsóknir og framleiðslu , flytja út einstaka þekkingu okkar á ýmsum sviðum o.s.frv. Við eigum að horfa með opnum hug til annarra landa í leit að hugmyndum og samstarfsaðilum. Þannig styrkjum við sjálfsmynd okkar og ímynd þjóðarinnar erlendis.
Það þarf að leita leiða til tryggja að sem allir geti búið þar sem þeir kjósa. Við eigum ekki að sætta okkur við þann húsnæðiskostnað sem við búum við í dag og þekkist hvergi annarsstaðar.
Við þurfum að tryggja stöðugleika í peningamálum svo einstaklingar og fyrirtæki geti gert áætlanir fram í tímann. Það er ljóst að krónan mun ekki verða sá gjaldmiðill sem við getum treyst til framtíðar og meðal annars af þeim sökum má aðild að ESB ekki tefjast úr hófi.
Við erum sennilega ríkari af auðlindum en flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við og beri okkur gæfa til að nýta þær með skynsömum hætti stöndum við uppi sem sterk þjóð. Mikilvægasta auðlindin er fólkið í landinu og því þurfum við að hlú að því eins og kostur er svo við missum það ekki frá okkur.
Reynsla undanfarinna ára hefur kennt mér að sveitarfélög innan Evrópusambandsins njóta góðs af því að vera innan þess, því þangað geta þau sótt þekkingu og fjármagn til að mennta fólk til nýrra starfa, stofna fyrirtæki og efla rannsóknir og nýsköpun. Að auki búa þau við stöðugleika, sem er frumskilyrði þess að hægt sé að byggja upp mannvænt samfélag.
Mörg krefjandi verkefni bíða Suðurkjördæmis á komandi árum og ég vil leggja fram þekkingu mína og reynslu til þess að takast á við þau og hef því ákveðið að bjóða mig fram í 1. – 3. sæti í komandi prófkjöri. Með reynslu minni og þekkingu tel ég mig geta lagt mikið af mörkum til að efla þingflokk Samfylkingarinnar á Alþingi. Ég vil vinna að því af fullum krafti að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu.”