Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ánægjulegar niðurstöður úr foreldrakönnun Skólapúlsins í Stóru-Vogaskóla
Sunnudagur 18. maí 2014 kl. 08:23

Ánægjulegar niðurstöður úr foreldrakönnun Skólapúlsins í Stóru-Vogaskóla

Við erum öll sammála því að grundvöllur fyrir velgengni er að okkur líði vel, við séum þokkalega sátt við okkur sjálf og þá sem næst okkur standa. Á bak við nemendur í skólanum okkar eru foreldrar en þeir bera fyrst og fremst  ábyrgð á sínum börnum og velferð þeirra. Ábyrgð starfsmanna grunnskóla er líka mikil og er samstarf og samvinna milli foreldra og starfsmanna algjört grundavallaratriði í velferð barnanna. Það var því mjög ánægjulegt að fá niðurstöður úr foreldrakönnun Skólapúlsins sem flestir grunnskólar á landinu taka þátt í. Skólapúlsinn er könnun á skólastarfi sem er framkvæmd um land allt. Tilgangurinn með þátttöku er að  útvega samanburðarhæf og aðgengileg gögn um mikilvæga þætti í skólastarfinu.

Þar kemur fram að almenn ánægja er með nám og kennslu í skólanum og þar er skólinn talsvert fyrir ofan landsmeðaltal. Foreldrar eru ánægðir með kennara, stjórnendur og starfsmenn almennt og samskipti þeirra við nemendur sem og hvernig tekið er á agamálum í skólanum. Einnig kom fram að upplýsingaflæði þykir gott og námslegum þörfum nemenda er mætt bæði í almennri kennslu og sérkennslu. Við teljum ástæðu til að vekja máls á því að virkni foreldra í námi barna sinna er töluvert yfir landsmeðaltali, sú þátttaka mun skila sér í bættum námsárangri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við erum því miður ekki laus við eineltismál hér, þótt þeim fari fækkandi, en skorum langt fyrir ofan meðaltal hvað varðar ánægju foreldra með úrvinnslu og hraða í meðferð eineltismála. Þar teljum við  að foreldrar og starfsmenn standi þétt saman og að upplýsingar berist okkur strax ef eitthvað bjátar á en það skiptir sköpum í meðferð eineltismála.
Í könnuninni kemur í ljós að foreldrar telja sig hafa mikil áhrif á ákvarðanir varðandi börnin þeirra og eru ánægðir með síðasta foreldraviðtal.
Öllum nemendum skólans býðst gjaldfrjáls skólamáltíð, sem flestir nýta sér og er sérstaklega ánægjulegt að sjá að ánægja með matinn er langt yfir meðaltali. Við teljum  að  það hafi áhrif að allur matur er eldaður frá grunni í mötuneytinu og að við framúrskarandi eldamennsku eru höfð  til hliðsjónar markmið Lýðheilsustofnunar.
Meirihluti barna á yngsta stigi nýtir frístundaúrræði eftir skóla og er mikil ánægja með þá starfsemi.
Í sameiningu munum við leggja okkur fram um að halda áfram því góða starfi sem unnið er.

Svava Bogadóttir skólastjóri
Linda Sjöfn Sigurðardóttir deildarstjóri