Ályktun um virkjanir í Reykjanesi
Aðalfundur Ferðamálasamtaka Suðurnesja haldinn í Saltfisksetrinu í Grindavík 14. júní 2007 lýsir yfir ánægju sinni með mikla atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjunum. Samhliða þessari uppbyggingu atvinnuveganna á svæðinu er ljóst að virkja þarf mikla orku úr háhitasvæðum Reykjanesskagans til að fullnægja þeirri orkuþörf sem skapast. Aðalfundurinn vill af þessu tilefni koma þeirri kröfu á framfæri að þær rafmagnslínur sem þarf að leggja, vegna nýrra orkuöflunar á Reykjanesinu, verði settar í jörð. Aðalfundurinn telur einnig ófrávíkjanlega reglu að hitaveiturör milli borhola og virkjunarhúss á Reykjanesinu verði neðanjarðar. Sama á við um dæluhús og spennustöðvar.
Góð sátt við umhverfið hefur verið aðalsmerki þeirrar atvinnuuppbyggingar sem þróast hefur með virkjunum Hitaveitu Suðurnesja hf. á Reykjanesinu fram að þessu samanber Bláa Lónið. Með þeim hætti vill aðalfundur Ferðamálasamtaka Suðurnesja að verði unnið áfram og náttúran fái að njóta sín eftir virkjanir sem áður eins og kostur er. Það er einlæg von aðalfundarins að Landsnet hf. taki tillit til þessara sjónarmiða við áætlanir sínar um raflagnir um Reykjanesskagann og Hitaveita Suðurnesja hf. við lagningu röra utan þéttbýlis um Reykjanesið.