Álverið í Helguvík - mikilvægasta verkefni atvinnulífsins
Á næsta kjörtímabili er mikilvægasta verkefnið að taka á skuldamálum heimila. Heimilin eru undirstaða samfélagsins, undirstaða atvinnulífsins og þar með undirstaða efnahags þjóðarinnar. Þess vegna hefur Framsókn barist fyrir bættri stöðu heimilanna allt síðastliðið kjörtímabil. Án þess að leiðrétta skuldastöðu heimilanna er tilgangslítið að fjölga störfum og byggja upp heilbrigðis- og menntakerfið, ef heimilin eru komin í þrot og fólk flúið land.
Framsókn er atvinnumálaflokkur - eftir stöðnunartímabilið, þar sem Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur voru saman í ríkisstjórn 1991-1995, kom Framsókn inn í ríkisstjórn með áætlun að skapa 12 þúsund störf. Við gerðum gott betur, þau urðu 15 þúsund á fyrsta kjörtímabilinu. Nú eftir 6 ára brotthvarf frá ríkisstjórnarborðinu lýsir Framsókn yfir stríði gegn atvinnuleysisbölinu. Við viljum útrýma atvinnuleysi úr íslensku samfélagi samhliða því að taka á skuldum heimila.
Hér á Suðurnesjum er atvinnuleysið mest og mikilvægast að byggja upp atvinnulífið. Tækifærin eru fjölmörg til þess að skapa fjölbreyttan atvinnumarkað. Ferðaþjónusta, sjávarútvegur, nýsköpunarfyrirtæki þar sem þekking er undirstaða atvinnusköpunnarinnar. Jafnframt er ákaflega mikilvægt að koma álverinu í Helguvík í gang. Sigurður Ingi Jóhannsson oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi og varaformaður flokksins hefur ítrekað lagt á það áherslu hversu mikilvægt það sé að koma eimreið uppbyggingarinnar í gang, því það fylgi svo margt í kjölfarið. Nú síðast ræddi hann þetta í Bítinu á Bylgjunni, mánudaginn 8 apríl.
Við Suðurnesjamenn verðum að viðurkenna að það að selja HS á sínum tíma varð til þess að við ráðum ekki yfir okkar eigin orkufyrirtækjum – og það hefur seinkað uppbyggingunni í Helguvík. Við ættum líka að viðurkenna að það er skynsamlegt að tryggja að arðurinn að auðlindum okkar og þjóðarinnar renni til samfélagsins með öruggum hætti. Framsókn hefur markað sér skýra stefnu – sem tekur mið af auðlindanýtingu Norðmanna – um hvernig það sé best til lengri tíma. Eitt atriðið er að koma ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá. Annað er að mikilvægt sé að stærri virkjanir séu í eigu fyrirtækja sem séu amk að 2/3 hluta í opinberri eigu. Þessi stefnumörkun hefur hinsvegar engin áhrif á að koma mikilvægasta atvinnuuppbyggingar verkefninu hér á Suðurnesjum – álverinu í Helguvík – í gang. Um það skulum við öll standa saman um. Með samvinnunni og samstöðunni hefst það.
Ingvi Þór Hákonarson
Suðurnesjamaður