Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Álver í Helguvík er aðkallandi hagsmunamál fyrir öll Suðurnes
Fimmtudagur 24. janúar 2008 kl. 10:37

Álver í Helguvík er aðkallandi hagsmunamál fyrir öll Suðurnes

Nýútkomin skýrsla Vinnumálastofnunar sýnir að enn mælist atvinnuleysi mest hér á Suðurnesjum – og fer vaxandi. Skemmst er að minnast ástandsins á 10. áratugnum sem olli fólksflótta héðan. Þá gaf sjávarútvegurinn eftir. Og óhjákvæmilegt er að hann gefi eftir nú í kjölfar kvótaskerðingarinnar. Brotthvarf Varnarliðsins hefur skapað verulegan vanda og til að bæta gráu ofan á svart getur niðursveifla á fjármálamarkaði hæglega  hert á atvinnuleysinu strax á næstu mánuðum. Þegar á heildina er litið, hlýtur atvinnuástand hér um slóðir að teljast afar viðkvæmt. Lítið má út af að bregða, t.d varðandi samdrátt í bygginga- og mannvirkjagerð, til þess að hér skapist kringumstæður sem vert er að hafa verulegar áhyggjur af.

Afgerandi aðgerða er þörf!
Augljóst er að aðgerðir til bóta verða að vera afgerandi og raunhæfar. Samfélagið hér þarf ekki á skýjaborgum að halda heldur alvöru innleggi frá framsæknum og ábyrgum fyrirtækjum, sem skapa margs konar, varanleg störf og greiða mannsæmandi laun. Fyrirtækjum, sem hafa burði til að mæta sveiflum í samfélaginu án þess að það bitni á starfsmönnum með uppsögnum eða launaskerðingu, fyrirtækjum sem pakka ekki saman og láta sig hverfa þegar í móti blæs. Eina stóra tækifærið í augsýn er að álver Norðuráls rísi sem fyrst í Helguvík. Það er sú burðarstoð sem við þurfum á að halda til að skapa nýjan stöðugleika og efla önnur framleiðslu- og þjónustufyrirtæki.

Virkar strax
Eftir brotthvarf Varnarliðsins bretti fólk upp ermar og flestir fundu sér einhverja nýja vinnu, þó að meðaltekjur lækkuðu talsvert. Margir Suðurnesjabúar þurfa nú í kjölfarið að sækja vinnu langan veg og ferðalög eru yfirleitt á kostnað launþega, bæði tími og farartæki. Hækkun á eldsneytisverði gerir þetta enn strembnara.
Álver í Helguvík færi strax að virka inn í þennan hóp, með undirbúningi að mannvirkjagerð við virkjanir og byggingaframkvæmdum við álverið sjálft. Svo taka við störfin í álverinu sem henta t.d. vel þeim sem misstu vinnuna á Vellinum, ekki síður tæknimenntuðu fólki en ófaglærðu. Álverið mun skapa dýrmætar tekjur fyrir fólkið sjálft og útsvarstekjurnar skila sér svo inn í viðkomandi sveitarfélag á Suðurnesjum. Reynslan af  álverinu á Grundartanga er líka í þessum dúr, þar hafa meðaltekjur hjá starfsfólki verið með því hæsta sem gerist á Vesturlandi og viðkomandi sveitarfélög hafa notið góðs af með ýmsum hætti.
Eitt af því sem fylgir tilkomu öflugra, ábyrgra fyrirtækja í samfélagið er ný bjartsýni. Þegar fólk með ólíka menntun og ólíkan bakgrunn kemur saman og leggst á árar með kraftmiklum heimamönnum fara hjólin að snúast hraðar. Í kjölfarið fylgja nýjar hugmyndir, og nýtt áræði sem á endanum skilar sér í fjölbreyttara atvinnuframboði og betri kjörum fyrir launþega.

Tilvalin kvennastörf
Störf í áliðnaði hafa fengið þau ummæli að vera karllæg en það er einfaldlega ekki rétt. Þarna eru mjög margvísleg atvinnutækifæri fyrir konur – og því ber að fagna, enda hefur mælst tiltölulega hátt atvinnuleysi meðal kvenna hér á Suðurnesjum. Eftirtektarvert er að launamunur kynja fyrir sambærileg störf er ekki mælanlegur hjá Norðuráli á Grundartanga. Þetta hef ég kynnt mér sjálfur og þetta er mikilvægt innlegg í kjaramál. En þegar að starfsemi álversins í Helguvík kemur, vil ég hvetja Norðurál sérstaklega til að taka tillit til kvenna í vaktafyrirkomulagi, þannig að sem flestar konur geti átt raunverulegt val um störf.

Áskorun
Fyrir liggur að tilkoma álvers í Helguvík verður gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnu- og byggðamál hér syðra. Ég skora því á alla sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum að taka höndum saman og tryggja hver með sínum hætti að álver rísi sem fyrst í Helguvík. Þar gildir einu hvort sem stuðningurinn felst í að greiða götu orkuöflunar, línulagna eða með öðrum hætti. Álver í Helguvík er ekki einkamál neinna, það er hagsmunamál allra Suðurnesjabúa, hvort sem þeir búa í Vogum, Garðinum, Grindavík, Sandgerði eða Reykjanesbæ.

Höfundur er Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur
og nágrennis og formaður Starfsgreinasambandsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024