Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Álver í Helguvík – samstöðu nú!
Föstudagur 15. febrúar 2008 kl. 16:03

Álver í Helguvík – samstöðu nú!

Það vita þeir Suðurnesjamenn sem mig þekkja að ég hef lengi barist fyrir því að fá hingað sterkt atvinnuskapandi fyrirtæki. Svoleiðis tækifæri eru ekki gripin upp með annarri hendi. Öðru nær. Við þekkjum söguna af pípuverksmiðjunni sem var næstum risin í Helguvík og af fleiri hugmyndum sem urðu næstum að veruleika. Hugmyndum sem var gaman að hlusta á en sköpuðu aldrei atvinnu. Við munum líka mörg hvernig það var að upplifa snarminnkandi atvinnu þegar kreppan gekk hér yfir á síðasta áratug. Kreppa sem enn skilur eftir ör í samfélaginu. Ég er ansi hræddur um að ef ekkert stórt nýtt tækifæri kemur til hér suðurfrá geti sagan endurtekið sig með ördeyðu og fólksflótta. Ég heyri að minnsta kosti fólk sem ég tek mark á tala um að þessi vendipunktur geti verið nær okkur í tíma en margan grunar.

Jákvæðu fréttirnar eru þær að stóra tækifærið blasir við í formi álversins sem Norðurál vill byggja í Helguvík. Álvers sem getur skapað fjölda starfa strax á næsta ári við uppbyggingu þess og fullbúið gæti það skaffað um 400 manns atvinnu beint auk þess sem gera má ráð fyrir a.m.k. 600 afleiddum störfum.  Álverið í Helguvík er eina tækifærið sem  blasir við með jafnmörg og fjölbreytt störf. Það er líka grjóthörð staðreynd  að mörg störf í álverinu myndu passa mjög vel fyrir það fólk sem starfaði áður hjá hernum og líka fyrir það fólk sem á hættu á að missa á næstunni vinnu vegna minnkandi þorskkvóta hér suðurfrá.
Þegar maður skoðar málið út frá þessum punkti er það með hreinum ólíkindum að við sem búum á atvinnusvæði álversins skulum ekki láta betur í okkur heyra til að krefjast þess að stjórnvöld geri allt til að greiða fyrir þessu stóra tækifæri. Kannski er það vegna þess að stuðningurinn er svo almennur hérna? Kannski finnst fólki það ekki þurfa að berjast fyrir því sem því finnst sjálfsagt að vera sammála um , þetta komi bara allt af sjálfu sér.

Einelti?
En það vantar ekki loks þegar hillir undir stóra atvinnutækifærið að þá láti fámennur hópur andstæðinga duglega í sér heyra. Öll eigum við rétt á okkar skoðunum en mér gremst alveg ósegjanlega framferði sumra umhverfissinna sem láta ekkert tækifæri ónotað til að reyna að spilla fyrir því að álver rísi í Helguvík. Þetta fólk þarf kannski ekki að óttast atvinnumissi en það verður að minnsta kosti að reyna að horfa á málin með augum fólks sem á allt sitt undir nýjum tækifærum á vinnumarkaði. Tökum til dæmis framkvæmdastjóra Landverndar, hvað ætli hann sé búinn að leggja marga steina í götu álvers í Helguvík? Hann virðist aldrei þreytast á að tala gegn því, gjarnan með botnfastri sannfæringu frekar en með haldbærum rökum. En er hann samkvæmur sjálfum sér? Hversu oft hefur hann til dæmis talað gegn fyrirhuguðu álveri við Húsavík? Mig rámar ekki í það. Svo mikið er að minnsta kosti víst að ef hann hefur gert það, þá er það eins og músartíst í samanburði við ljónsöskrin út af Helguvík. Er maðurinn með einhverja rörsýn á Helguvík af því að hann býr sjálfur á Suðurnesjum? Fróðlegt væri að heyra skýringar hans.

Mér finnst líka komin tími til að að sveitarfélögin hér suðurfrá standi saman og hætti þessu karpi vegna lagningar nauðsynlegra háspennulína. Í fyrsta lagi eru öll þessi sveitarfélög á atvinnusvæði álversins og munu því njóta góðs af því með margvíslegum hætti. Í öðru lagi hefur orkan sem á að leiða um þessar línur miklu meira notagildi en bara fyrir álverið í Helguvík. Þetta er spurning um lífæð fyrir atvinnulífið í þessum landshluta. Ef góður vilji er fyrir hendi ætti ekki að vera mikið mál að finna þessum línum ásættanlega staðsetningu.

Að lokum
Garður, Reykjanesbær, Norðurál, Hitaveita Suðurnesja og fleiri hafa unnið vel að undirbúningi álvers í Helguvík en nú er komið að okkur Suðurnesjamönnum að snúa bökum saman og gera þá kröfu til stjórnvalda að þau tryggi að engin frekari töf verði á uppbyggingu þessa fyrirtækis sem skapar mikla atvinnu og stendur með ábyrgum hætti að umhverfismálum. Ég segi enn og aftur: “Þetta tækifæri er eina áþreifanlega, stóra lausnin á þeim vanda sem atvinnlífið á Suðurnesjum stendur frammi fyrir. Sýnum nú að við kunnum að standa saman þegar mikið liggur við og tryggja hér atvinnu til framtíðar”


 

Einar Bjarnason,

vélvirki og býr í Garðinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024