Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Álver í Helguvík – áhrif á umhverfið!
Föstudagur 21. apríl 2006 kl. 14:30

Álver í Helguvík – áhrif á umhverfið!

Atvinnuvegir okkar Íslendinga hafa í senn áhrif á afkomu fólks og umhverfið og nægir þar að nefna sjávarútveg, stóriðju, flutningastarfsemi og landbúnað. Þegar horft er til áhrifa álvers í Helguvík á samfélag og umhverfi á Suðurnesjum er í fyrsta lagi ljóst að ný máttarstoð bætist við atvinnulífið, flóra starfa verður fjölbreyttari og fjölmörg störf í álverinu munu henta vel því fólki sem nú er að missa vinnu vegna brottfarar hersins. Það hefur líka sýnt sig að tilkoma álvers hefur mjög jákvæð áhrif á eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði og söluverð fasteigna í nærliggjandi sveitarfélögum eins og dæmin sanna hér á landi.

Í öðru lagi spyrjum við okkur hver verða annars konar umhverfisáhrif af álverinu í Helguvík og hvernig verður útlit og ásýnd? Það mun vera HRV verkfræðisamsteypan sem vinnur að undirbúningi umhverfis- og skipulagsmats álversins í Helguvík og er gert ráð fyrir því að sú niðurstaða verði kynnt með haustinu. Nú þegar liggur fyrir tillaga að matsáætlun og má skoða hana í heild sinni á heimasíðu HRV.is. En eru umhverfisáhrif eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af? Með þróun á mengunarvarnabúnaði og hertu umhverfiseftirliti ættu þær áhyggjur að vera hverfandi litlar. Á heimasíðu Norðuráls má lesa eftirfarandi yfirlýsingu: “Það er stefna Norðuráls að starfsumhverfi jafnt sem ytra umhverfi verði eins heilnæmt og kostur er með velferð starfsmanna, nágranna og náttúrunnar að leiðarljósi. Tryggt verður að varfærni í umhverfismálum verði eðlilegur þáttur í allri starfsemi og ákvarðanatöku. Með markvissri endurskoðun og endurumbótum á starfseminni verður sífellt reynt að ná betri árangri í umhverfismálum”.

Kröfur íslenskra stjórnvalda um mengunarvarnir varðandi stóriðju eru afar strangar og því ber að fagna. Bygging álvers í dag fer í gegnum mikið og strangt ferli svo að sem best sátt náist um staðsetningu, útlit, framkvæmdir og starfsemi. Í starfsleyfi Norðuráls er tekið fram hvaða kröfur mengunarvarnir þurfi að standast og hvaða mælingar skuli framkvæma, en þess ber að geta að áhrif iðnaðarsvæðis Norðuráls hafa í öllum tilvikum reynst vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem gilda. Allar slíkar rannsóknir munu vera framkvæmdar af óháðum aðilum undir eftirliti Hollustuverndar ríkisins. Frekari upplýsingar varðandi umhverfisáhrif, mælingar og fleira er að finna á heimasíðu Nordural.is .

Annað sem þarf að hafa í huga er nálægð við íbúabyggð og ásýnd. Samkvæmt matsáætlun HRV er talað um minnst eins kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð og nálægð við höfnina sem lykilatriði varðandi staðsetningu. Varðandi ásýnd virðist aðallega átt við sjónræn áhrif, þá frá íbúabyggð. Þess má geta að íbúar á nágrenni álversins á Grundartanga voru t.d. hafðir með í ráðum varðandi litaval á byggingum álversins þar og arkítekt álversins var heimamaður.

Við eigum að gera miklar kröfur til fyrirhugaðs álvers í Helguvík varðandi umhverfismál en við megum ekki gleyma því að sýna sömu sanngirni og þegar við vegum saman atvinnuskapandi áhrif sjávarútvegs eða flutningastarfsemi og áhrif þessara atvinnugreina á umhverfið.

Verum samtaka nú um að álver í Helguvík verði strax að veruleika sem við verðum sátt við um ókomna framtíð.


Bjarni Sæmundsson, vélsmiður
Gunnar Þórarinsson, viðskiptafræðingur
Þórður Karlsson, öryggisfulltrúi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024