Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Almenningssamgöngur á Suðurnesjum
  • Almenningssamgöngur á Suðurnesjum
Föstudagur 14. febrúar 2014 kl. 15:24

Almenningssamgöngur á Suðurnesjum

- Oddný G. Harðardóttir skrifar

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið á dögunum um almenningssamgöngur og þá umdeildu aðgerð Vegagerðarinnar og innanríkisráðherra að kippa leiðinni Leifstöð – Reykjavík út úr kerfinu. Hugmyndin með heildstæðu almenningssamgöngukerfi er að arðbærar leiðir greiði fyrir þær óarðbæru og þannig verði mögulegt að vefa þétt net rútuferða sem gagnist almenningi í leik og starfi og stuðli um leið að umhverfisvænni umferð.

Ég leyfi mér að fullyrða að stjórni SSS hafi alla bæjarfulltrúa á Suðurnesjum að baki sér og að minnsta kosti tvo fyrrverandi bæjarstjóra Garðs sem nú sitja á Alþingi. Málið er þverpólitískt og varðar almannahag. Sveitarstjórnarmenn í örðum landshlutum eru einnig uggandi og hafa áhyggjur af því að hagstæðum leiðum verði kippt út úr þeirra almannasamgöngukerfi.
Í sérstakri umræðu á Alþingi á miðvikudaginn síðasta (12. febrúar) sem ég óskaði eftir, bar innanríkisráðherra fyrir sig áliti Samkeppniseftirlitsins og að hún þyrfti að bregðast við í samræmi við það. Í stuttu máli leggur samkeppniseftirlitið til að allar leiðir sem skila hagnaði verði einkavæddar og allar leiðir sem skila tapi ríkisvæddar. Það þýðir að einkaaðilar fá gróðann af leiðum sem standa undir sér en almenningur greiði hallann af óhagstæðari leiðum. Annað hvort þurfi því ríkissjóður að borga mun meira með almenningssamgöngum eða að þær versni til muna sem er líklegri niðurstaða.

Það er heimilt samkvæmt EES rétti að takmarka samkeppni liggi almannahagsmunir undir, t.d. að ríkið reki eitt vínbúðir eða spítala. Álit samkeppniseftirlitsins þýðir ekki að framkvæmdin sé ólögmæt. Enginn dómstóll hefur úrskurðað útboðið á Suðurnesjum ólögmætt og eru því harkaleg viðbrögð innanríkisráðuneytisins óþörf og grunur læðist að mönnum að hagsmunir annarra en almennings liggi þar að baki.

Í umræðunni á Alþingi þann 12. febrúar studdi aðeins einn ræðumaður af níu innanríkisráðherra í málinu. Aðeins Sjálfstæðismenn töluðu gegn hagsmunum Suðurnesjamanna. Slóðin á umræðuna er hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20140212T161521.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður, sem þekkir málið mjög vel og styður ekki aðgerðir ráðherra, tók ekki þátt í umræðunni en þátttakan er takmörkuð við tvo frá hverjum flokki. Með stuðningi hans ásamt eindregnum stuðningi framsóknarmanna sem þeir lýstu í sínum ræðum og stuðningi stjórnarandstöðunnar er von til þess að meirihluti Alþingis sé ekki til staðar fyrir þeim einbeitta vilja innanríkisráðherra að vinna skemmdarverk á því almenningssamgöngukerfi sem búið er bjóða út á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Kerfi sem ætlað er að bæta þjónustu við almenning, tengja saman bæina á Suðurnesjum með þéttu neti og tengja þá um leið með greiðum hætti við höfuðborgarsvæðið.

Við þurfum að koma í veg fyrir það að draumur okkar og áform um góðar almenningssamgöngur verði að engu og þar vegur samstaðan þyngst, samstaða Suðurnesjamanna, sveitarstjórnarmanna og þingmanna.

Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024