Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Almenningssamgöngur á Suðurnesjum
Miðvikudagur 13. febrúar 2013 kl. 12:21

Almenningssamgöngur á Suðurnesjum

Nú stendur yfir endurskoðun á öllu kerfi almenningssamgangna á Suðurnesjum með það að markmiði að bæta og efla almenningssamgöngur á svæðinu. Því er stundum haldið fram að Vinstrihreyfingin-grænt framboð hafi komið fáum stefnumálum sínum í framkvæmd en þegar litið er til staðreynda málsins kemur hins vegar hið gagnstæða í ljós.

Þrátt fyrir lítið fjárhagslegt svigrúm hefur verið lagt í metnaðarfullt átak til efla almenningssamgöngur um allt land og ríkið tók myndarlegt frumkvæði að eflingu þess með umtalsverðu framlagi á fjárlögum. Að hluta til var þar með bætt fyrir frestun stórframkvæmda þar sem vel skipulagðar og metnaðarfullar almenningssamgöngur draga úr þörfinni fyrir dýrar vegaframkvæmdir, ekki síst þar sem þéttbýlið er mest. Nýlega tók stjórn Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum við 29 milljónum til að efla kerfi almenningssamgangna á svæðinu m.a. með því að bæta við ferðum í Grindavík og Voga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi framlag frá ríkinu er til viðbótar við það bætta kerfi sem lagt verður upp með í útboði á þessu ári. Stjórn sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum samþykkti að ganga til samninga við Strætó bs um samstarf og þar með er í fyrsta sinn komið upp heildarnet almenningssamgangna á Íslandi þar sem eitt fyrirtæki Strætó bs. er í forsvari. Bráðlega verða ferðir einnig auknar, upplýsingar um ferðir bættar og auðveldara að ferðast milli staða á Reykjanesi og inn á höfuðborgarsvæðið.

Framtíðarsýn Vinstri grænna er að eitt net almenningssamgangna verði um allt land þar sem hægt er að fara hvert á land sem er með ódýrum og auðveldum hætti þar sem allar áætlanir væru samtengdar. Um leið þarf að auka tíðni ferða þannig að ekki verði til sá þéttbýlisstaður á landinu þar sem ekki eru reglulegar áætlunarferðir til fjölmennustu svæða.  Öflugar almenningssamgöngur eru mikil kjarabót auk þess sem þær stuðla að betri loftgæðum og minni sóun á eldsneyti. Landið okkar er verðmætt og lífsgæði okkar byggja á auðlindum sem gæta verður að. Mikilvægt er að almenningur hafi val um vistvænar og heilbrigðar samgöngur. Greiðar og öruggar almenningssamgöngur, hjólreiðarbrautir, og notkun vistvænna orkugjafa í samgögnum munu draga úr hávaða- og loftmengun og bæta lýðheilsu.

Arndís Soffía Sigurðardóttir Lögfræðingur 1. sæti VG í Suðurkjördæmi
Inga Sigrún Atladóttir Guðfræðingur 2. sæti VG í Suðurkjördæmi