Allt undir á opnum fundum
Þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fara um kjördæmið þessa dagana og halda alls 10 opna fundi sem bera yfirskriftina Velferð og réttlæti. Við byrjuðum á Höfn í Hornafirði 4. maí og höfum átt sjö góða fundi í kjördæminu síðan þar sem rædd voru, m.a. atvinnumál, sjávarútvegsmál, menntamál og ríkisfjármál. Evrópusambandið bar á góma, vandamál tengd íslensku krónunni, upptaka evru og margt fleira.
Á þeim þremur fundum sem framundan eru verður farið yfir þau málefni sem efst eru á baugi, baráttumál og framkvæmdir en tilgangurinn er ekki síður sá að hlusta á ábendingar þeirra sem mæta á fundina og svara spurningum. Í kjölfar nýgerðra kjarasamninga má gera ráð fyrir að rætt verði um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til eflingar velferðarkerfisins og örvunar í hagkerfinu. Kjör þeirra verst settu eru bætt og segja má að kjarasamningarnir marki framtíðina því þeim fylgja aukin tækifæri ungs fólks til vaxtar, menntunar og áhrifa.
Breytingar í sjávarútvegi, s.s. hugmyndir um innköllun aflaheimilda, viðurkenningu á þjóðareign og endurúthlutun með nýtingarsamningum gegn gjaldi ber örugglega á góma á þeim fundum sem eftir eru sem allir eru haldnir í sjávarplássum.
Í kvöld, miðvikudagskvöld, verður opinn fundur í Vestmannaeyjum kl. 20:00 í Alþýðuhúsinu. Fimmtudagskvöldið 19. maí kl. 20:00 verður fundur í Samkomuhúsinu í Garði og laugadaginn 21. maí kl. 10:30 verður fundur í Reykjanesbæ í sal Sálarannsóknarfélagsins Víkurbraut.
Við vonumst til að Suðurnesjamenn hvar í flokki sem þeir standa komi á fundina í Garði eða í Reykjanesbæ og ræði við okkur um uppbyggingu samfélagsins eftir hrun á grunvelli jöfnuðar og réttlætis og til að taka þátt í lifandi stjórnmálaumræðum á miklum umbrotatímum.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi