Allskonar samskipti
Samskipti geta verið skemmtileg og þau geta verið erfið. Bæði innan fjölskyldu í víðasta skilningi, vinahópnum, á vinnustöðum og fleira. Í starfi fjölskyldufræðinga er unnið með einstaklinga og fleiri sem málin varða. Það getur tekið á þegar samskipti eru ekki góð eða skilningur ríkir ekki á milli aðila. Vinna með lausnamiðaða nálgun getur skipt miklu máli og finna leiðir til að geta átt í betri samskiptum.
Samskipti við börn á heimili
Stundum gerist það að samband á milli foreldra og barna verði erfitt, þá sérstaklega á unglingsárum. Ástæður geta verið mjög misjafnar og stundum koma greiningar barna þarna inn í, skólaforðun gæti verið að byrja og allskonar vanlíðan og tilfinningar hjá barni sem foreldrum þykir erfitt að vinna með. Mikilvægt er að grípa inn í þessar aðstæður áður en þær vinda meira upp á sig og meiri vandi skapast á milli barna og foreldra, t.d. eins og að:
- Fara á rúntinn og spjalla í bílnum án síma.
- Vera einlæg og segja barninu frá að þú hafir áhyggjur og spyrja hvað get ég gert svo að þér líði betur.
- Spila og eiga góð samskipti.
- Gefa barninu þínu tíma án þess að önnur systkini séu með.
Samskipti í parasambandinu
Í parasambandinu gerist það stundum að aðilar taki hvort öðru sem sjálfsögðum hlut. Þetta getur gerst hvenær sem er og skiptir ekki máli hvort sambandið sé ungt eða að komin sé góð reynsla eftir langa sambúð. Ástæðurnar geta verið svo fjölmargar, eins og barneignir, atvinna, fjármál og margt fleira sem getur haft truflandi áhrif á sambandið. Mikilvægt er að næra parasambandið vel og innilega til að viðhalda því á sem besta máta. Hægt er að vinna með eftirfarandi:
- Gera eitthvað tvö saman, eins og taka rúnt.
- Setja niður draumana ykkar finna út hvort þið eigið sameiginlega drauma ef ekki gæti makinn átt einhvern draum sem er spennandi og gæti orðið sameiginlegur draumur.
- Rifja upp hvað var það sem þið sáuð í fari hins aðilans þegar þið voruð að kynnast.
- Gefa ykkur tíma í að spjalla um annað en fjölskyldulífið.
Samskipti eftir skilnað
Skilnaður hefur mikil áhrif á einstaklinga bæði börn og fullorðna. Mikilvægt er að reyna eftir bestu getu að koma í veg fyrir streitu hjá börnum vegna aðstæðna hjá foreldrum. Gott er að setja sér smá reglur til að gera þetta vel eins og að:
- Tala aldrei illa um hitt foreldrið í áheyrn barna.
- Ekki vera í samskiptum þegar mikil reiði er, sofa frekar á því og taka samtalið næsta dag.
- Hafa það að leiðarljósi að vera besta útgáfan af sjálfum sér.
Samskipti á vinnustaðnum
Það er svo dýrmætt að hlakka til að mæta í vinnuna sína. Þar skiptir mórallinn miklu máli. Hvernig er vinnustaðamenningin á þínum vinnustað, er eitthvað sem hægt er að gera til bæta hana? Starfsmannamálin geta haft mikil áhrif á afköst fyrirtækja og hafa margar rannsóknir sýnt fram á að góður mórall á vinnustað geti snúið við rekstrinum á jákvæðan hátt og því afar mikilvægt að vinna með menningu á vinnustöðum. Getur einstaklingur haft sjálfur áhrif á vinnustaðamenninguna? Já, með því að:
- Vera jákvæður í vinnunni.
- Tala ekki í bakið á samstarfsfólki sínu.
- Ræða strax málin ef eitthvað hefur neikvæð áhrif á starfið.
- Hrósa samstarfsfólki sínu.
Allt eru þetta bara brot af hugmyndum sem hægt er að nýta sér þegar einhver vandi steðjar að. Hægt er að fá faglega aðstoð til að gera samskiptin betri og skemmtilegri og þannig minnka aukið álag sem fylgir stundum lífinu.
Jenný Þórkatla Magnúsdóttir,
fjölskyldufræðingur hjá Sálfræðistofu Suðurnesja.