Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Allir út að slá
Föstudagur 19. júní 2009 kl. 14:46

Allir út að slá

Það er fallegt í íslenskum sveitum þegar sólin skín, fuglarnir syngja og grasið sprettur.  Þrátt fyrir alla fegurðina skapar hún ekki ein og sér verðmæti til handa bóndanum sem landið byggir. Til að sjá sér og sínum farborða verður hann að fara út að slá og lifa af landinu sínu. Að sama skapi verður íslensk þjóð að skapa verðmæti úr þeim gæðum sem til staðar eru. Lykillinn að bættri stöðu þjóðarbúskaparins er að skapa meiri gjaldeyristekjur og afla meira en eytt er.

Sterkar stoðir
Við Íslendingar megum aldrei gleyma því að þrátt fyrir erfiða stöðu þá eigum við margar sterkar stoðir sem við munum byggja á til framtíðar. Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð, menntunarstig hátt og grunnstoðir samfélagsins eru sterkar. Sú gnótt af hreinu ferskvatni sem við búum að er auðlind sem ekki skal vanmeta. Þá eigum við mikið af góðu ræktunarlandi og enn meira af ónýttu ræktanlegu landi sem kemur til með að nýtast okkur vel í framtíðinni svo sem við ræktun repju til lífdíselframleiðslu, ræktunar erfðabreytts byggs til lyfjagerðar og svo mætti lengi telja. Sjávarútvegurinn er sterkur enda fiskurinn okkar sá besti í heimi en gæta þarf að því að hlúa að greininni í stað þess að ráðast að henni með fyrningarhugmyndum.

Erlendar fjárfestingar
Orkan í iðrum jarðar er gríðarleg auðlind og mikil tækifæri eru til frekari gjaldeyrissköpunar í orkufrekum iðnaði. Erlendir fjárfestar hafa áhuga en hlutverk stjórnvalda er að skapa þau skilyrði að hægt sé að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Meginmarkmiðið í þeim efnum er að stjórnsýslan þvælist ekki fyrir þegar kemur að því að hrinda verkefnum af stað líkt og gerðist þegar Sunnlendingar þurftu að sá á bak stórri mannaflsfrekri kísilverksmiðju, sem til stóð að staðsetja í Ölfusi, til Kanada þar sem umhverfisráðherrann Þórunn Sveinbjarnardóttir treysti sér ekki til að gefa út yfirlýsingu um að ráðuneytið myndi geta afgreitt umhverfismat vegna verkefnisins innan lögbundins tímafrests. Við höfum ekki efni á fleiri slíkum "fyrirgreiðslum" af hálfu stjórnvalda. Seinagangur núverandi umhverfisráðherra við afgreiðslu aðalskipulags í tengslum við virkjanir í neðri hluta Þjórsár vekur þó ugg um að fleiri tækifæri gangi okkur úr greipum.

Í hnotskurn
Nú sem aldrei fyrr ríður á að stjórnvöld átti sig á þeirri skyldu sinni að skapa skilyrði sem liðka fyrir þeim tækifærum sem til staðar eru til uppbyggingar í íslensku atvinnulífi. Það dugir ekki að horfa á fallega sprettuna bylgjast í sunnanvindinum. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum, fara út að slá og koma ilmandi töðunni í hús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Unnur Brá Konráðsdóttir