Allir á völlinn!
Það er formlega komið haust, mörgum finnst sumarið kveðja allt of snemma en persónulega tek ég vetrinum fagnandi. Rútínan er komin í fullan gang og þá er körfuboltinn að hefjast sem í mínu tilfelli er mikið fagnaðarerindi, enda er ég Liverpool maður og ekki yfir mörgu að gleðjast þar þessa dagana. Áður en ég renni yfir körfuna þá vil ég senda knattspyrnuliðum bæjarins innilegar hamingjuóskir en bæði Keflavík og Njarðvík fóru upp um deildir í sumar. Keflavík mun aftur spila í efstu deild og festa sig þar vonandi í sessi og Njarðvík sigraði 2. deildina og spreyta sig í Inkasso-deildinni næsta sumar.
Reykjanesbær er mikill íþróttabær og á veturna á körfuboltinn sviðið. Flaggskip bæjarfélagsins um þessar mundir er hið unga og frábæra kvennalið Keflavíkur og er óhætt að segja að þær hafi slegið í gegn síðasta vetur. Ég hef fulla trú á að þær verji titla sína núna í vetur, þetta lið er einfaldlega það gott.
Njarðvíkurstúlkur eru svo annað ungt og efnilegt lið en þeim er spáð falli af flestum „sérfræðingunum“ en ég er ekki í nokkrum vafa um að þær komi til með að blása hressilega á þær spár. Það kemur a.m.k. ekkert lið til með að bóka sigur í Ljónagryfjunni í vetur. Karlarnir hefja einnig leik núna í vikunni og það verður gaman að sjá hvernig okkar liðum gengur. Hér á árum áður var þetta oft spurningin bara hvort liðið yrði Íslandsmeistari en síðustu 37 tímabil (Frá 1981) hafa Njarðvík (13) og Keflavík (9) orðið Íslandsmeistarar 22 sinnum karlamegin sem er ótrúlegur árangur! En sá stóri hefur reyndar ekki komið hér í bæ síðan árið 2009 og finnst mörgum um allt of langt liðið síðan það gerðist.
Njarðvíkurliðinu er spáð ofar í vetur en hvorugu liðinu er spáð alvöru titlabaráttu. Það má hins vegar aldrei afskrifa þessi tvö lið og ljóst að ef allt gengur upp eru möguleikar fyrir hendi. Keflvíkingar voru ekki langt frá því að skáka KR í fyrra og Njarðvík tvö árin þar á undan svo hver veit, kannski verður þetta ár Reykjanesbæjarliðanna? Ég vil hvetja bæjarbúa til þess að fjölmenna á leiki liðanna í vetur, það er svo mikilvægt að sýna liðunum stuðning, bæði þegar vel og illa gengur.
Deildirnar eru reknar af frábæru fólki báðu megin sem í sjálfboðavinnu berst fyrir því dag og nótt að halda úti þessum glæsilegu liðum sem eru svo flott auglýsing fyrir bæjarfélagið okkar. Það eru breyttir tímar, hér á árum áður þá var í raun fátt annað í boði á veturnar en að skella sér á körfuboltaleik en nú er mikil afþreying í boði. Reynum að skipuleggja okkur, muna að það sem er í sjónavarpinu er hægt að horfa á tímaflakkinu og fjölmenna á Sunnubrautina og í Ljónagryfjuna í vetur. Frábær skemmtun í boði og félögin bjóða einnig upp á frábærar veitingar, pullurnar í Ljónagryfjunni eru lostæti og þá eru Keflvíkingarnir öflugir þegar þeir kynda í grillinu á Sunnubrautinni.
Áfram Njarðvík….& Keflavík