Ákall til bæjarfulltrúa allra flokka í bæjarstjórn Reykjanesbæjar

 Öll getum við verið sammála um að bygging Nesvalla á sínum tíma var mikið framfaraspor í húnæðismálum aldraðra á Suðurnesjum.  Þar fóru saman þarfir þeirra sem vildu minnka við húsnæði og um leið voru skapaðar góðar aðstæður fyrir félagsstarf eldri borgara í bænum.  Kórónan í uppbyggingu hugmyndafræði  svæðisins var að að seinna skyldi þar rísa langþráð hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara.  Þeirri hugmyndafræði sem menn voru svo sammála um og hrifnir af, virðist nú eiga að kasta fyrir róða.  Nú skal öllu hrært saman í einn pott, án umræðu um aðra möguleika.
Öll getum við verið sammála um að bygging Nesvalla á sínum tíma var mikið framfaraspor í húnæðismálum aldraðra á Suðurnesjum.  Þar fóru saman þarfir þeirra sem vildu minnka við húsnæði og um leið voru skapaðar góðar aðstæður fyrir félagsstarf eldri borgara í bænum.  Kórónan í uppbyggingu hugmyndafræði  svæðisins var að að seinna skyldi þar rísa langþráð hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara.  Þeirri hugmyndafræði sem menn voru svo sammála um og hrifnir af, virðist nú eiga að kasta fyrir róða.  Nú skal öllu hrært saman í einn pott, án umræðu um aðra möguleika.
Bráðabirgðalausn aftur?
Samkvæmt þeim samningsdrögum er nú  liggja fyrir  er ljóst að Reykjanesbær hyggst  kaupa íbúðir  á  fyrstu og annari hæð Nesvalla og leggja í hendur Nesvalla  sem eiga að útfæra hvernig hugsanlegt hjúkrunarheimili skuli líta út. Frumdrög þeirra tillagna liggja fyrir og ljóst er af þeim að um afslátt frá núverandi kröfum er að ræða.   Þau kaup verða fjármögnuð með húsnæðisláni sem ríkið ábyrgist greiðslur af.  Jafnframt er í áherslupunktum samningsins að finna þá framtíðarsýn höfunda  að frekari uppbygging hjúkrunarheimilisins felist í  kaupum bæjarins á fleiri íbúðum Nesvalla, og/ eða að fjölga að öðrum kosti á þeirri lóð sem Nesvellir hafa fengið úthlutað. Framtíðarsýnin er því óljós.
Rökin eru þau að við núverandi  aðstæður  og vegna fyrri samninga við Nesvelli sé ekki önnur lausn í boði.  Sá kostnaður sem hlýst af að leysa aftur til sín lóð í eigu bæjarins sé of mikill til að unnt sé að reisa núna hjúkrunarheimili skv. ströngustu kröfum.  Hugmyndin er að 85% hlutur ríkisins nægi fyrir stofnkostnaði hjúkrunarheimilisins.
Ráða hagsmunir einkafyrirtækis för?
Framtíðaruppbygging öldrunarmála  í Reykjanesbæ  virðast því fyrst og fremst miðast við hagsmuni  óháðra aðila (Nesvalla),  í stað þess  sem eðlilegt gæti talist, að byggja öldruðum íbúum bæjarins okkar hjúkrunarheimili  sem sambærilegt er þeim er best þekkjast og standast allar þær kröfur er til eru gerðar.  Það eiga aldraðir sjúkir svo sannarlega skilið, hver svo sem staða bæjarsjóðs er þessa daganna.  
Bæjarráðsfulltrúarnir Gunnar Þórarinsson  Sjálfstæðisflokki og Friðjón Einarsson Samfylkingu  hafa nú á tveimur fundum bæjarráðs setið hjá  í atkvæðagreiðslu um þetta mál og jafnframt bókað að þeim finnist málið vanreifað.  Þeir virðast eins og svo mörgum öðrum að ekki hafi verið nægjanlega látið á það reyna að aðrar leiðir sem betur hentuðu hagsmunum bæjarins og eldri borgara væru færar. Þeir vilja líta til framtíðar og halda sig við þá hugmyndafræði sem kynnt var af Nesvöllum á sinum tíma.
Hagsmunum aldraðra ýtt til hliðar?
Öllum sem fylgst hafa með framgangi þessa máls hljóta að sjá að málsmeðferðin hefur á engu stigi verið hafin yfir vafa.  Á vormánuðum  árið 2010 þegar tilkynnt var um fjárframlag ríkisins skipaði bæjarráð nefnd sem ætlað var að að ná fram niðurstöðu  í þessu máli.  Í nefndina voru skipaðir Böðvar Jónsson formaður bæjarráðs, Sigurður Garðarsson framkvæmdastjóri Nesvalla, og Guðbrandur Einarsson þáverandi oddviti A-Listans.  Sú nefnd skilaði minnisblaði til bæjaráðs þann 1. júli 2010. Meginniðurstaða þeirra var að bæði væri ódýrast og fljótlegast að ganga til samninga um breytingar á núverandi húsnæði Nesvalla. Í minnisblaði þeirra kemur þó ekki fram að annarra raunhæfra leiða hafi verið leitað í alvöru.  Hagsmunum hinna öldruðu var ýtt til hliðar fyrir hraða og peninga.
Allt frá þeim tíma hefur verið unnið út frá því að sú lausn sem nefndin lagði til, væri sú sem bæri að taka. Tilraunir til að benda á að með þeirri lausn væri verið að stíga skref til baka, slá af kröfum, og að ekki væri verið að gæta ýtrustu réttinda aldraðra hafa ekki árangur borið.  Bæjarstjórn mun á fundi sínum þann 15. febrúar með samþykkt á 7.máli í fundargerð bæjarráðs frá 10. febrúar  gefa bæjarstjóra heimild til að ganga frá samningum við Nesvelli .  Samþykki bæjarfulltrúar þann lið er vandséð að til baka verði snúið.  Áherslupunktar þess samnings er klárir og kunnar öllum bæjarráðsmönnum og væntanlega bæjarfulltrúum einnig.
Ákvörðun sem ekki verður aftur tekin
Ég vil í ljósi þess sem ég hef hér að framan rakið  í fullri auðmýkt  beina orðum mínum og ákalli til bæjastjórnarfulltrúa allra flokka í bæjarstjórn  Reykjanesbæjar.  Sú ákvörðun  sem bæjarfulltrúar standa nú frammi fyrir, verður ekki til baka tekinn , og mun um ókomna framtíð hafa áhrif á uppbyggingu  öldrunarmála í bænum okkar.  Verði bæjarstjóra falið að ganga til samninga við Nesvelli á grundvelli þeirra samningsdraga sem fyrir liggja er ljóst að framtíðaruppbyggingu og skipulagi öldrunarmála sem allir voru sammála um verður stefnt í voða. Enn og aftur er hætta á að við föllum í þá gryfju  að aðlaga hjúkrunarheimili  að takmörkunum húss sem hugsað var til annnarra þarfa.
Áskorun
Ég skora á ykkur áður en þið samþykkið 7. lið fundargerðar bæjarráðs frá 10. febrúar,  að sameinast í eina skoðunarferð, og skoða til að mynda hjúkrunarheimilin Hrafnistu í Boðaþingi og Mörkina í Reykjavík. Og bera svo saman upplifunina úr þeirri ferð, við þær hugmyndir sem nú liggja fyrir um breytingar á Nesvöllum.  Því fyrr sjáið þið ekki hverju er verið að fórna fyrir þær 100 milljónir sem menn telja sig nú  vera að spara.
Með bestu kveðjum,
Hannes Friðriksson


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				