Áherslur málþings USK
Íslendingar geyma fjármuni að stórum hluta í mannvirkjum. Það er því bæði brýnt og þjóðhagslega hagkvæmt að huga vel að þessum málaflokki. Hagtölur gefa til kynna að verðmæti allra fasteigna árið 2010 er um 4400 Milljarðar króna. Áætlað er að fjármunir um 70% þjóðarinnar þ.e. ríki, sveitafélaga og fólksins í landinu sé bundið í mannvirkjum.
Þann 14. október sl. hélt Umhverfis- og skipulagssvið Reykjanesbæjar sitt árlega málþing um Skipulags- og byggingamál í sal Akademíunnar við Krossmóa. Þema þingsins að þessu sinni voru helstu breytingar og áherslur í Skipulags- og byggingarmálum m.a. stofnun byggingarstofnunnar, en til stendur að setja byggingamál undir eitt ráðuneyti, lög um skipulagsmál sem öðlast gildi 1. janúar 2011og frumvarp laga um mannvirki sem líklegt er að öðlist gildi á sama tíma.
Fyrirlesarar voru reynsluboltar þessa málaflokks þeir: Björn Karlsson Brunamálastjóri, sem leiðir og stýrir vinnu við gerð nýrra byggingareglugerða og stofnun nýrrar byggingastofnunnar, en um 60 aðilar mismunandi málaflokka og áherslur í skipulags-og byggingamála koma að þessum breytingum og breytingum í lagaumhverfinu. Í kjölfarið kynnti Stefán Thors Skipulagsstjóri ríkisins helstu áherslur í nýsamþykktum lögum um Skipulagsmál, sem taka gildi nú í janúar 2011. Magnús Sædal byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar rakti síðan helstu breytingar og þróun frá núgildandi lögum og byggingareglugerðum til mannvirkjalaga-frumvarpsins. Að lokum kynnti Magnús hvernig þeir eru að undirbúa sig með gerð handbókar fyrir embættið, en byggingafulltrúaembættið í Reykjavík undir forystu Magnúsar hefur löngum verið leiðandi á þessu sviði. Fundinum lauk síðan með opnum umræðum og fyrirspurnum til fyrirlesara.
Í máli fyrirlesarana komu mörg fróðleg sjónarmið og ljóst að þær breytingar sem eru framundan í byggingamálum eru umtalsverðar og mikið til bóta: Björn brunamálastjóri skýrði frá því að byggingarmál eru ansi víðtæk og talsvert flókin og eru nú á margra höndum og því brýnt að einfalda ferli mála. Umhverfisráðuneytið fer með allskyns vottunar-og starfsleyfismál. Iðnaðar-og viðskiptaráðuneytið fer með byggingarefni. Félagsmálaráðuneytið fer með ýmiss ferilmál sem og lög um fjöleignahús og fl. Nýsköpunarmiðstöð (áður Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins) gefur m.a. út tæknilegar leiðbeiningar og Brunamálastofnun fer með ábyrgð á brunavörnum í byggingareglugerð og hefur eftirlit með forvarnarstarfi og starfsemi slökkviliða, en starfsemi og rekstur slökkviliða er alfarið ábyrgð sveitafélaga. Þá hefur starfsemi með rafmagnsöryggismál verið færð undir ábyrgð Brunamálastofnunnar sem sérsvið. Málaflokkurinn krefst því víðtækrar menntunnar, reynslu og færni á mörgum sviðum og oft eru andstæðir hagsmunir í umsýslunni, en sveitafélögum er falin framkvæmdin. Byggingaferlið er flókið, mismunandi byggingavörur eru á markaðnum, víðtækar tæknilegar úrlausnir misgóðar og fjölbreyttur mannskapur sem starfar við málaflokkinn. Stjórnsýsla málaflokksins er því mjög vandmeðfarin.
Mörgum þykir allt benda til þess að málaflokkurinn byggingarmál verði á hendi Brunamálastofnunnar. Árið 2002 skipaði Umhverfisráðherra þá tvær nefndir annarsvegar til að skoða skipulagsmál og hinsvegar að skoða byggingamál, en árið 1997, með lögum nr. 37/1997, voru þessir málaflokkar sameinaðir í Skipulags-og byggingalögum. Nefndir hafa nú skilað áliti sínu og um næstu áramót taka í gildi ný lög um skipulagsmál þannig að ljóst er að þessi málaflokkar verða aðskildir í lögum aftur. Von er því á að frumvarp til laga um mannvirkjagerð verði samþykkt á Alþingi fljótlega, reglugerðir eru í smíðum og taka gildi fyrrihluta ársins 2011.
Í nýjum lögum um Skipulagsmál er m.a. lögð áhersla á styttri og skarpari afgreiðslu í skipulagsmálum. Áhersla er á skýrari verkferla og skýrari ábyrgðir við gerð landsskipulags. Að auki er sveitafélögum veitt heimild til gjaldtöku t.d. vegna umsýslu á deili-og/eða rammaskipulagi. Að auki skýrði Stefán frá þeirri vinnu sem nú er í gangi við nýja skipulagsreglugerð, en óskað er eftir ábendingum frá öllum sveitafélögum og 58 öðrum aðilum að auki.
Bætt aðgengi fatlaða og skýrari skilgreiningar er áhersla í nýjum lögum. Það er löngu tímabært að taka á af alvöru á aðgengismálum í lögum og reglugerðum. Skýrari ákvæði laga hjálpa byggjendum og viðkomandi við að gæta jafnræðis og ná þannig árangri og sömuleiðis eftirlitsaðilum að framfylgja þessu við hönnun og framkvæmd. Þetta á sérstaklega við um nýbyggingar, breytingar á mannvirkjum og endurnýjun á starfsleyfum.
Skýrar er kveðið á um takmarkannir og hlutverk byggingastjóra og nokkuð víst að reglugerð mun flokka mannvirki út frá fyrirhugaðri starfsemi þeirra. Við gerð reglugerða er mikið sótt úr sænsku og dönsku reglugerðum. Ráðherra hefur lagt til að ný byggingareglugerð verði sú framsæknasta á Norðurlöndunum. Framundan eru enn frekari kynningar á þessum breytingum. Við hjá Umhverfis- og skipulagssviði þökkum ykkur fyrir þátttökuna á þinginu og vonumst til að fá góð viðbrögð, umræður og ábendingar frá sem flestum ykkar.
Sigmundur Eyþórsson,
tæknifræðingur.