Áhersla á uppbyggingu innviða
Íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað ört á síðustu árum og hefur uppbygging innviða engan veginn haldið í við þá fjölgun á fjölmörgum sviðum. Ein af stærstu áskorunum sem bíða nýrrar bæjarstjórnar er að skipuleggja og vinna að uppbyggingu innviða bæjarfélagsins svo hægt verði að mæta þjónustukröfum allra íbúa. Þar þarf sérstaklega að huga að leikskólum, skólum, íþróttamannvirkjum, íbúðum fyrir eldri borgara, hjúkrunarheimilum og heilsugæslu en þetta þarf svo allt að tengjast saman við frekari uppbyggingu íbúabyggða með öflugum samgöngum.
Ég hef starfað lengi í íþróttahreyfingunni og þekki þar vel til. Íþróttaiðkun er máttugt fyrirbæri, þar hafa margir kynnst sínum bestu vinum og jafnvel sínum lífsförunaut. Það er heldur ekki deilt um það hvað íþróttir hafa góð áhrif á heilsu fólks, jafnt unga sem aldna. Ég vil áfram sjá Reykjanesbæ fremstan í flokki þeirra sem bjóða öllum að stunda íþróttir við sitt hæfi. Til þess að svo megi verða í ört vaxandi bæjarfélagi þarf strax á næsta kjörtímabili að leggja mikla áherslu á að móta stefnu í uppbyggingu íþróttamannvirkja hér í Reykjanesbæ. Staða okkar í dag er einfaldlega sú að við höfum ekki mannvirki til þess að standa undir þjónustu við þann fjölda íbúa sem nú búa í bæjarfélaginu. Afleiðingin er sú að það hefur nánast ekki verið hægt fyrir íþróttafélögin hér að bjóða upp á íþróttir fyrir alla þó að allt kapp hafi verið lagt á að svo megi verða og hreyfingunni hafi hingað til nánast tekist það ómögulega við það aðstöðuleysi sem þau búa.
Með fjölgun íbúa fjölgar bæði iðkendum og íþróttagreinum sem vilji er til að stunda og til þess að svara þeirri eftirspurn verður að bæta íþróttaaðstöðuna í bænum okkar. Íþróttafólkið okkar býr margt við það að þurfa að keppa á völlum sem eru á undanþágu frá reglum sérsambanda eða eru rétt innan þeirra marka sem sett eru. Afreksíþróttafólkið okkar hefur ekki aðstöðu til að æfa eins mikið og það þarf sökum tíma og plássleysis í íþróttamannvirkjunum. Þetta veldur því líka að ýmis félög hafi ekki haft aðstöðu til þess að halda keppnismót sem þau annars myndu gera og verða því fyrir töluverðu tekjutapi vegna þess.
Það er mikilvægt að farið verði strax í skipulagsvinnu til að ákveða staðsetningar og magn bygginga, síðan að forgangsraða framkvæmdum við uppbyggingu íþróttamannvirkja í samstarfi við íþróttahreyfinguna til þess að við getum áfram verið í fremstu röð sem íþrótta- og æskulýðsbær. Þetta er mér mikið hjartans mál og hefur verið lengi.
Því óska ég eftir ykkar stuðningi í 3.–4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins laugardaginn 26. febrúar.
Alexander Ragnarsson.