Áhersla á konur og krabbamein
Sigrún Ólafsdóttir skrifar.
Vetrarstarf Krabbameinsfélags Suðurnesja hefur farið vel af stað í ár. Október er áberandi mánuður þar sem aðal áherslan er á konur og krabbamein og margar byggingar á Suðurnesjum eru fallega lýstar í bleiku. Alls staðar mætir félagið velvilja og margir eru reiðubúnir til að leggja okkur lið við uppbyggingu félagsins. Frá því í byrjun október hafa verslunareigendur við Hafnargötuna selt falleg kerti frá Jöklaljósi til styrktar félaginu og ýmsar aðrar verslanir hafa veitt okkur styrk á einn eða annan hátt.
Laugardaginn 18. október var efnt til Samflots í sundlaug Akurskóla sem heppnaðist afar vel. Ýmislegt annað en flotið var í boði. Ilmur af Lavander var í loftinu frá hinum frábæru Zolo olíulömpum en hluti ágóða af sölu lampanna í október rennur til Krabbameinsfélagsins.
Fida Abu Libden kynnti og gaf smakk af vörum frá GeoSilica sem er náttúrulegt íslenskt fæðubótarefni framleitt úr kísil og mun koma á almennan markað í lok árs.
Allar konur sem mættu fengu prufur af hinum frábæru EGF húðdropum frá Sif Cosmetics. Ánægjulegt var að geta kynnt þessar frábæru íslensku vörur.
Boðið var upp á kaffi frá Kaffitár, kleinur frá Sigurjónsbakaríi og ávexti frá Nettó.
Baldur Guðmundsson og Sævar Smárason fluttu notalega tónlist meðan gestir nutu alls sem í boði var.
Helgina 24. – 26. október munu fjórir veitingastaðir á Suðurnesjum bjóða upp á bleika matseðla þar sem hluti ágóða rennur til Krabbameinsfélags Suðurnesja. Veitingastaðurinn Vitinn í Sandgerði og KEF restaurant á Hótel Keflavík verða með bleikan matseðil laugardaginn 25. október og Flughótel í Keflavík laugardaginn 25. og sunndudaginn 26. október. 20% af ágóða matseðils þessara veitingastaða rennur til KS. Veitingastaðurinn Tveir Vitar í Garði verður með bleikan matseðil alla helgina föstudags-, laugardags- og sunnudagskvöld og rennur allur ágóði af matseðlinum til KS. Einnig verða þeir með sitt vinsæla kaffihlaðborð þessa helgi og rennur allur ágóði þess einnig til okkar félags.
Ég hvet Suðurnesjabúa til að eiga notalega stund með fjölskyldu eða vinum á einhverjum þessara veitingastaða og styrkja um leið gott málefni.
Sunnudaginn 26. október kl 20:00 verður bleik messa í Keflavíkurkirkju í samstarfi við Krabbameinsfélag Suðurnesja. Sigurbjört Kristjánsdóttir mun þar segja frá reynslu sinni af því að greinast með krabbamein. Seríurnar sjá um söng og leik ásamt Arnóri Vilbergssyni sem verður við hljófærið.
Mánudaginn 3. nóvember kl 19:30 verður farin bleik rökkurganga sem er hugsuð fyrir alla fjölskylduna. Gengið verður frá Holtaskóla og eru allir hvattir til að mæta með vasaljós, luktir eða höfuðljós. Allir fá afhenta bleika filmu yfir ljósin áður en gangan hefst. Gengið verður að skógræktinni í Vatnsholti þar sem boðið verður upp á heitt kakó og sögustund við varðeld. Ævar Þór Benediktsson mun lesa upp úr hinni frábæru bók sinni Þín eigin þjóðsaga. Með þessari göngu ljúkum við árlegu árvekniátaki varðandi krabbamein hjá konum og segjum takk fyrir okkur.
Alla viðburði félagsins má sjá á Facebook-síðu Krabbameinsfélags Suðurnesja.
Sigrún Ólafsdóttir
Forstöðumaður Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Suðurnesja