Agnar Sigurbjörnsson – minning
Agnar Sigurbjörnsson lést 17. desember. Útför hans fer fram frá Keflavíkurkirkju þriðjudaginn 10. janúar klukkan 13. Agnar ól allan sinn aldur í Keflavík, var lengi sjómaður og síðan starfsmaður áhaldahúss Keflavíkur og Þjónustumiðstöðvar Reykjanesbæjar.
Leiðir okkar Agnars lágu saman í Suðurnesjafélagi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þar var Agnar traustur félagsmaður frá stofnun félagsins til dauðadags.
Svæðisfélag VG á Suðurnesjum var stofnað 2001, tveimur árum eftir að hreyfingin varð til. Fyrsti formaðurinn var Björg Sigurðardóttir ljósmóðir og fyrsti gjaldkerinn Sævar Bjarnason verkamaður, samstarfsmaður Agnars. Undirritaður var fyrsti ritarinn og síðan formaður 2002–2008 en þá tók Agnar við formennskunni og gegndi því starfi með sóma til 2015. Þá hafði hann fengið alvarlegt hjartaáfall og náði ekki fullri heilsu eftir það. Núverandi formaður er Hólmfríður Árnadóttir.
Við Vinstri græn sem kynntumst Agnari söknum hans og erum honum þakklát fyrir samstarfið. Við vottum samúð eiginkonu hans, Jórunni Dóru Hlíðberg, og afkomendum þeirra.
Þorvaldur Örn Árnason