Ágæti sjóðsfélagi, kæri sjóðsfélagi
Á hverju ári fáum við sem greiðum í lífeyrissjóð sent heim umslag sem innheldur yfirlit um hversu vel að okkur verður búið í ellinni. Kæri sjóðfélagi og svo kemur allt málskrúðið, gröfin,tölurnar og hversu vel stjórn sjóðsins hefur ávaxtað peningana okkar. Yfirleitt en þetta hið vandaðasta plagg 1- 2 opnur á glanspappír.
Þar er að finna stöðu okkar um það hvernig okkur kann að farnast þegar við komumst á þann aldur að við hættum að vinna. Svo eru sett upp ótal dæmi um hvernig staðan lítur út miðað við greiðsur í dag og svo eftir x mörg ár miðað við áframhaldandi greiðslur. Ég verð að segja eftir síðustu upplýsingar sem ég fékk frá mínum sjóði finnst mér þetta ekkert að hlakka til. Bæði var upphæðin ekki stór, ég láglaunamanneskja, á ekki von á öðru en að ég verði það áfram og svo verður það slagurinn við TR þ.e. ef sú stofnun verður enn við lýði þegar að því kemur.
Ég hef viljandi forðast að nefna nokkrar tölu, finnst það bara til að flækja málin. Tölur og gröf eru eru eitthvað sem ég er búin að fá nóg af.Eru eins og hver önnur spá, afskaplega óáreiðanleg enda líka bara spá. Svo er þetta með trúverðuleikan, hvernig á ég að taka mark á upplýsingum sem lífeyrirsjóðurinn sendir mér ? Hvernig á ég að geta treyst þeim aðilum sem ráku sjóðinn eins og það væri enginn morgundagur, tóku sér stórar upphæðir í laun,“ af því að þeir báru svo mikla ábyrgð“ skömmtuðu sér risnu, bíla og þáðu boðsferði eins og þeir ættu lífið að leysa og allt þetta af því þeir báru hagsmuni sjóðfélaga fyrir brjósti. Enn sitja þessir sömu menn við stjórnvölinn, nú á þeirri forsendu að enginn geti komð í þeirra stað af því þá myndi öll sú þekking, viðskiptavild og vinna sem þeir búa yfir glatast sjóðsfélögum. Skelfileg tilhugsun.....
Ég vil losna við þetta fólk. Það er komin tími til að fækka lífeyrissjóðunum. Við þurfum ekki yfir 30 sjóði, er ekki hagræðing og sparnaður lausnarorðið í dag. Fólki er sagt upp fyrir annað eins. Ég vil sjá að það sem við borgum í lífeyrissjóð skili sér til baka þannig að sjóðsfélagar geti lifað mannsæmandi lífi, ekki bara hangi rétt svo á fátæktarmörkum og þar fyrir neðan.
Lífeyrisþegar hafa undantekningarlaust þurft að þola miklar skerðingar og stefnir í áframhald.Hvað er launaskerðingin hjá þeim sem reka fyrir okkur lífeyrissjóðina ? Hvað er upphæðin sem fer í rekstur og skrifstofuhald. Tap lífeyrissjóðanna er stjarnfræðilegt, tölurnar ógnvekjandi, milljarðar á milljarða ofan. Innan 10 ára stefnir í gjaldfall þeirra sjóða sem verst eru settir. Það verður að staldra við núna og breyta kerfinu annars verða ekkert eftir þegar að okkur kemur sem nú erum á vinnumarkaði.
Svo er það ríkið sem er að bregðast líka. Við teljum okkur vera að tryggja okkur ákveðin grunnlífeyrir með skattgreiðslum. Það er hinsvegar ljóst að ríkið hefur og er skipulega að draga úr almannatryggingakerfinu. Það er stefnt að því að því að lífeyrissjóðirnir taki alfarið við. Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um stöðu lífeyrissjóðanna verður ríkið að hisja upp um sig buxurnar og breyta um stefnu.
Svo er eitt sem ég hef verið að velta fyrirmér. Þegar sjóðfélagi fellur frá fær eftirlifandi maki greitt frá lífeyrissjóði bætur í x-langan tíma, mismunandi eftir lífeyrissjóðum, erfir ekki að fullu. Ég er kannski að fara með rangt mál,en eins og þetta hefur verið útskýrt fyrir mér rennur það sem eftir er óskipt inn í viðkomandi sjóð.Er þetta ekki eitthvað öfugsnúið, ef þetta er svona þarf ekki að breyta þessu. Gæti ég kannski arfleitt manninn minn að þessum réttindum þannig að hann nýti góðs af, eða aðrir afkomendur. Ég bara spyr.
Kæri sjóðsfélagi, ég fæ alltaf svolítin hroll þegar ég fæ þessi bréf , af hverju, jú þá rifjast upp fyrir mér allt sukkið og óráðsían sem hefur viðgengist í undanfarin ár. Að þarna úti hafi verið menn sem léku sér að lífi mínu sem sjóðsfélaga og líka þínu, og eru enn að. Það rifjast líka upp fyrir mér öll ábyrgðin sem þeir báru fyrir sig og bera enn. Skelfing held ég að þeir séu orðnir þreyttir. Það væri gustukaverk að gefa þeim frí. Sameinum lífeyrissjóðina, einn væri nóg. Hugsið ykkur rekstrarkostnaðinn sem sparaðist, „gegnsæið“ sem myndaðist, peningarnir sem hægt væri að ávaxta og væntanlega væri auðveldara að fylgjast með vinnulagi sjóðsins.
Kæri sjóðfélagi eigum við ekki að gera þetta að kröfu okkar allra. Dropinn holar steinninn. Einn sjóður, meira í vasann fyrir okkur og kannski gæti maður leyft sér að hlakka til elliáranna.
Pálmey Gísladóttir
Varaformaður Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar.