Afreksmenn af Suðurnesjum
Það var athyglisvert að fylgjast með íslenska íþróttafólkinu á smáþjóðaleikunum í Andorra og uppörfandi að sjá hve öfluga íþróttamenn við eigum. Hlutur Suðurnesjamanna var þar mikill en þeir unnu til 11 verðlauna af 72 sem íslenskt íþróttafólk vann á leikunum í allt. Það er virkilega ánægjulegt að vita til þess að úr okkar samfélagi komi svo margir afreksmenn. Suðurnesin hafa löngum státað af fræknu íþróttafólki bæði í einstaklingsgreinum sem hópgreinum og hefur þessi árangur vakið mikla athygli í gegnum árin.
Eftir leikana í Andorra tel ég ekki á neinn hallað þó nafn einnar konu sé getið sérstaklega sundkonunnar ungu Erlu Daggar Haraldsdóttur. Hún var meðal mestu afreksmanna leikanna og jafnframt Suðurnesjanna með 3 gullverðlaun og 1 silfurverðlaun. Þrenn af verðlaunum Erlu Daggar eru vegna einstaklingsgreina. Erla Dögg hefur sýnt og sannað að hún er orðin einn okkar besti sundmaður á landsvísum og með góðum stuðningi gæti hún orðið einn okkar fremsti íþróttamaður á næsti ólympíuleikum. Það eru mörg sundmannsefnin sem tekið hafa sín fyrstu sundtök í litlu lauginni í Njarðvík.
Mörgum er enn í fersku minni afrek njarðvíkingsins Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar sundmannsins sterka. Hann var margfaldur íslandsmeistari og valinn íþróttamaður UMFN oftar en nokkur annar. Erla Dögg var valin íþróttamaður UMFN á síðasta aðalfundi og er á góðri leið með að taka við merki Eðvarðs Þórs á þessu sviði. Það er mikill heiður fyrir okkur að eiga slíka afreksmenn innan okkar raða.
Til hamingju íþróttafólk af Suðurnesjum, til hamingju íslenskir íþróttamenn. Við erum stolt af árangri ykkar á smáþjóðaleikunum í Andorra.
Kristján Pálsson formaður UMFN