Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Afrek ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum á Suðurnesjum!
Miðvikudagur 27. mars 2013 kl. 10:57

Afrek ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum á Suðurnesjum!

Ríkisstjórn Íslands hreykir sér af því hversu mikið hafi fækkað á atvinnuleysisskrám og þakka það sínum „frábæru“ hugmyndum sbr. „Nám er vinnandi vegur“ eða „Liðsstyrkur“. Þeir sem eru atvinnulausir og vilja nýta tækifærið „Nám er vinnandi vegur“ komast fljótt að því að námið er aðeins vinnandi vegur í eina önn og í starfsbundnu námi, ekki er boðið upp á bóklegt nám

Hvað á svo að gera eftir eina önn í námi þegar áhuginn hefur vaknað? Á hverju á þá að lifa? Jú, þú ferð bara á námslán! En þá blasir við nýtt vandamál, fjöldi fólks er komið á vanskilaskrá eftir hrun og fær því ekki lán nema gegn veði í eignum annarra og oftast eru þær ekki fáanlegar.

Atvinnuleysi hefur í raun ekkert minnkað, til þess að fá vinnu hér á Suðurnesjum þarf fólk að hafa fullan bótarétt svo vinnuveitandi geti gert samning við VMST um að taka viðkomandi í vinnu og fá greiddar bætur með viðkomandi og þarf því lítið að greiða í laun úr eigin rekstri. Þetta kalla ég að búa til „nútíma niðursetninga“. Sá sem ráðinn er til starfa á þennan hátt er ekki að ávinna sér frekari bótarétt, þrátt fyrir vinnu er hann að nýta áfram bótarétt. Sá sem á rétt á hlutabótum eða er hreinlega kominn á launaskrá sveitafélaga fær ekki vinnu þar sem ekki eru greiddar fullar bætur með honum. Þegar atvinnulausir fara í vinnu sem „niðursetningar“, komnir á launaskrá sveitarfélags og eða fluttir til Noregs þá má sjá fækkun á skránni en það eru ekki ný og varanleg störf heldur leikur með tölur.

Nær væri að nota fjármagnið til þess að skapa varanleg störf og láta hvert atvinnusvæði halda utan um uppbyggingu svæðisins. Það fólk sem sér um nærþjónustu á hverjum stað er best til þess fallið að sjá um verkefnin enda veit það best hvar þörfin er og hvar tækifærin liggja.

Dögun leggur fram metnaðarfulla og skýra stefnu hvað þetta varðar og treystir fólkinu sjálfu til þess að efla sitt svæði. Þessi þjónusta sem ætti að vera skipulögð í landshlutunum/kjördæmunum sjálfum krefst þess að bæði þeir sem hafa menntað sig til starfa, svo og þau afleiddu störf sem skapast með þessari þjónustu mun vaxa og eflast. Þetta aukna sjálfstæði og minni miðstýring mun þannig auka atvinnutækifæri og fækka fólki á atvinnuleysisskrá og það án þess að greitt sé með fólkinu.

Ragnhildur L. Guðmundsdóttir,
skipar 6. sæti Dögunar í Suðurkjördæmi

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024