Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sunnudagur 26. október 2008 kl. 13:05

Áfram Vogar - Áfram Suðurnes

Á skömmum tíma hafa miklar breytingar orðið í fjármálaheiminum og erfitt að sjá hvert stefnir. Það fer engin varhluta af því sem nú er að gerast. Einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög glíma nú við afleiðingar frjálslegrar útrásar og óhóflegra fjárfestinga. Óvíst er hversu langan tíma það mun taka að vinna sig út úr þessum óvenjulegu aðstæðum. Í þessari stöðu er mikilvægt að láta ekki hugfallast heldur halda ótrauð áfram. Það er núna sem góð gildi mannlegra samskipta eiga við. Samstaða og samvinna fjölskyldna, vina og nágranna skiptir máli þegar við vinnum til baka stolt okkar og orðspor þjóðar.

Hvað varðar Sveitarfélagið Voga hefur fjárhagsáætlunarvinna verið sett í biðstöðu þar til mál skýrast. Fylgst er með fréttum og brugðist við þegar ástæða þykir til. Meginverkefni bæjarfulltrúa Voga er að verja stöðu sveitarfélagsins, þ.e. að reyna eftir fremsta megni að halda uppi óbreyttri þjónustu án þess að hækka álögur. Staðan hjá okkur einkennist af óvissu eins og hjá öðrum landsmönnum. Erfið en yfirstíganleg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íbúar hafa eflaust tekið eftir því að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa staðið þétt við bakið á Sparisjóði Keflavíkur í þeirri trú að hann standi af sér öldurótið. Sú barátta gengur vel og hlýtur vonandi farsælan endi. Forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hafa lýst því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum á Íslandi séu tryggðar að fullu og án hámarks. Sveitarfélagið hefur því kosið að halda öllu sínu fjármagni í Vogaútibúi Sparisjóðsins og leggja þannig sitt af mörkum til þess að Sparisjóðurinn haldi sjó.

Það er mikilvægt að sveitarfélögin standi saman á tímum sem þessum. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum hefur verið farsælt. Í gegnum árin hefur verið unnið að mikilvægum verkefnum Suðurnesjabúum öllum til heilla. Gott samstarf er lykillinn að farsælu samfélagi. Sameinuð þurfum við að halda áfram að nýta öll þau tækifæri sem gefast til uppbyggingar á Suðurnesjum. Gildir þá einu hvort um er að ræða álver, netþjónabú eða önnur smærri eða stærri fyrirtæki.

Í öldurótinu er auðvelt að gleyma framtíðinni. Gætum þess að svo fari ekki. Gleymum ekki börnunum okkar sem sum hver velta nú vöngum yfir stöðunni. Hlustum á þau og leiðbeinum. Málum ekki skrattann á vegginn en verum raunsæ. Umfram allt- byggjum upp, með framtíðina í huga.

Baráttukveðja

Birgir Örn Ólafsson
forseti bæjarstjórnar
Sveitarfélagsins Voga