Áfram um atvinnu- og heilbrigðismál
Mikil deigla er nú í undirbúningi margra verkefna við sköpun nýrra starfa, sérstaklega þegar kemur að orkunýtingu. Stór hluti þeirra verkefna snýr beint að Suðurkjördæmi og því nokkuð kostulegt að lesa öfugmælagrein oddvita sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi á vef Víkurfrétta um framgöngu stjórnvalda gagnvart okkar svæði. Vissulega eiga sér stað erfið átök um HSS en við stöndum saman sem einn maður þingmenn kjördæmisins í því að draga úr niðurskurði þar með öllum tiltækum ráðum. Meðal annars með því að láta taka sérstakt tillit til nálægðarinnar við alþjóðaflugvöll og þá 1800 íbúa Ásbrúar og nema við Keili. Á mánudagsmorgun kl 10.00 fundum við t.d. allir þingmenn kjördæmisins með yfirstjórn HSS, sveitarstjórnarmönnum af svæðinu og fjármálastjóra heilbrigðisráðuneytisns um stöðuna. Er það í beinu framhaldi af fundi okkar með sömu aðildum og sveitarstjórnarmönnum í síðustu viku. Vonandi náum við ásættanlegum árangri í málinu enda gríðarlega mikilvægt að verja grunnþjónustu HSS og sækja fram með þá góðu stofnun í sátt íbúa og stjórnvalda. Þar skiptir miklu sú órofa samstaða sem er á meðal íbúa og sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum við að verja stofnunina og þjónustu hennar.
En aftur af starfi því sem nú á sér stað hjá stjórnvöldum í atvinnumálum og kemur víða við og dregur fram hve fráleitt er að halda því fram að okkar svæði sé fyrir borð borið. Þvert á móti. Þar ber sérstaklega að nefna mikilvægi þeirrar ákvörðunar umhverfisráðherra að framkvæmdir við Suðvesturlínu geti farið af stað og fari ekki í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Það skiptir öllu máli fyrir orkunýtingu á Suðurnesjum; byggingu álvers í Helguvík og gagnavers á Ásbrú svo stór dæmi séu
tekin.
Í tölum og upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu kemur margt athyglisvert fram um stöðu mála. Atvinnuleysi hefur sem betur fer aukist hægar en spáð var en mikilvægt er að undirbúa næstu áfanga í áætlun um aðgerðir í atvinnumálum. Framgangur áætlunarinnar um endurreisn efnahagslífsins, sem skapar svigrúm til hraðari lækkunar vaxta, afnáms gjaldeyrishafta í áföngum og bætt skilyrði til fjárfestinga, er veigamesta aðgerð stjórnvalda í atvinnumálum en bráðaaðgerðir hafa einnig unnið gegn atvinnuleysinu og að mestu skilað tilætluðum árangri. Þá eru það vísbendingar um endurnýjunarrmátt atvinnulífsins að störfum fjölgar hjá hátækni- og nýsköpunarfyrirtækjum.
Aðgerðir og orkunýting
Jafnframt er það athyglisverð staðreynd að samkvæmt lauslegri könnun meðal nokkurra fyrirtækja auk upplýsinga frá Nýsköpunarmiðstöð um fjölda starfa í frumkvöðlasetrum leiðir í ljós yfir 500 ný störf hafa orðið til frá því haustið 2008. Sama vísbending birtist í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands en þar fjölgar störfum í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi um 14% frá 4. ársfjórðungi 2008 til 4. ársfjórðungs 2009. Að jafnaði fækkaði störfum um 5% á sama tíma Hvað varðar orkunýtinguna og staðreyndir um stöðuna má nefna að veigamestu áætlanir um fjölgun starfa tengjast verkefnum í orkufrekum iðnaði og tengdum virkjunum, sérstaklega í Suðurkjördæmi vegna álvers og virkjana bæði á Hellisheiði og á svæði HS orku. Þar er um mikinn fjölda starfa og mikilvægar fjárfestingar að ræða. Óvissa og erfiðar aðstæður til fjármögnunar hafa tafið ákvarðanir en leysist úr því má gera ráð fyrir að skriður komist á framkvæmdir strax á vormánuðum.
Til að varpa ljósi á raunverulega stöðu mála er gagnlegt að skoða yfirlit yfir stöðuna í stærstu verkefnunum sem mörg hver eru í okkar kjördæmi þar sem mest á ríður að koma atvinnustiginu af stað:
Gagnaver Verne Holdings á Reykjanesi
Alþingi er nú með til umfjöllunar heimildarlög um gerð fjárfestingarsamnings vegna uppbyggingar á gagnaveri á Ásbrú við Reykjanesbæ og verður hann afgreiddur frá Alþingi innan skamms. Verne Holdings hafa nýlega fengið til liðs við sig fjárfestingarsjóðinn Welcome Trust sem nýjan kjölfestufjárfesti og vonir eru bundnar við að framkvæmdir hefjist af fullum krafti. Samkvæmt mati KPMG er áætlað að um 270 störf verði til tengd uppbyggingunni og um 250 störf tengd rekstri gagnaversins.
Búðarhálsvirkjun og Straumsvík
Landsvirkjun undirbýr byggingu Búðarhálsvirkjunar. Fyrstu undirbúningsframkvæmdir hefjast á næstu vikum en byggingartími virkjunarinnar er áætlaður þrjú ár. Bygging hennar skapar um 800 ársverk. Gert er ráð fyrir að orkan fari til stækkunar
álversins í Straumsvík. Um er að ræða endurnýjun framleiðslubúnaðar í núverandi skálum sem eykur framleiðslugetuna um 40 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að verkið í heild taki tvö og hálft ár og skapi um 600 ársverk.
Endurbygging Suðvesturlínu
Landsnet undirbýr endurnýjun raforkukerfisins á Reykjanesi með uppbyggingu Suðvesturlínu eftir að ráðherra úrskurðaði að hún þyrfti ekki að fara í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Þegar verkið verður boðið út og framkvæmdir hefjast í sumar skapast strax um 45 ársverk en alls verða ársverkin um 255 á þriggja ára framkvæmdatíma.
Álver Norðuráls í Helguvík
Framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík fara á fullan skrif á 2. ársfjórðungi þessa árs, þ.e. eftir um það bil tvo mánuði. Fjöldi starfa á byggingartíma við álverið og tengdar virkjanir eru á þriðja þúsund talsins og munu valda viðsnúningi í atvinnumálum á Suðurnesjum og langt út fyrir þau.
Við þetta má bæta að starfshópur fjármálaráðherra hefur undanfarið kannað og útfært mögulega aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun stærri verkefna. Þar hefur einkum verið horft til framkvæmda vegna samgöngumannvirkja og uppbyggingar í ferðaþjónustu auk verkefna sem nú er að komast á framkvæmdastig. Nokkur dæmi:
Samgöngumannvirki
Unnið er að undirbúningi samgöngumiðstöðvar við Hlíðarfót í Reykjavík auk þess sem framkvæmdir við tvöföldun á 7 km kafli á Suðurlandsvegi og veghluti á Vesturlandsvegi verið boðin út.
Uppbygging fjölsóttra ferðamannastaða
Þá er iðnaðarráðuneytið að meta þörf á uppbyggingu innviða á fjölsóttum ferðamannastöðum enda stefnt að mikilli fjölgun ferðamanna á næstu árum og greinin einn helsti vaxtasproti landsins í dag. Má þar sérstaklega nefna áhrifin af Suðurstrandavegi fyrir kjördæmið í nýjum möguleikum í ferðaþjónustu. Líkt og þetta yfirlit yfir markvisst og öflugt starf í atvinnumálum dregur fram er góður gangur í þessum málum hjá stjórnvöldum og gangi áætlanir að stórum hluta eftir verður mikill fjöldi nýrra starfa til á næstu mánuðum og misserum. Þá mætti bæta við þotuverkefninu góða á Vallarsvæðinu og mörgu öðru. Meira um það í næstu grein.
Björgvin G. Sigurðsson
alþingismaður