Áfram Beina leið
Nú líður að lokum þessa kjörtímabils og framundan eru kosningar sem ráða því hverjir það verða sem stjórna sveitarfélaginu næstu fjögur ár í það minnsta. Bæjarmálafélagið Bein leið varð til árið 2013 og býður nú fram í sveitarstjórnarkosningum í þriðja sinn. Þann hóp skipa einstaklingar sem vilja vinna sveitarfélaginu sínu gagn án tengsla við stjórnmálaflokka. Þessi hópur þarf því ekki að undirgangast einhverja flokkspóitíska duttlunga og er engum háður nema íbúum sveitarfélagsins.
Bein leið hefur ásamt Samfylkingu, verið í meirihlutasamstarfi sl. 8 ár, með Frjálsu afli á fyrra tímabili og Framsóknarflokki frá 2018. Óhætt er að fullyrða að á þessum tveimur kjörtímabilum hefur staða sveitarfélagsins tekið miklum breytingum og þeim flestum til góðs. Áskoranir hafa verið margar og krefjandi en á þeim hefur verið tekið.
Ef litið er til fjárhagsstöðu sveitarfélagsins þá hefur hún tekið stakkaskiptum og sveitarfélagið ekki lengur í gæslu Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Gerð er krafa skv. lögum um að skuldaviðmið sveitarfélaga sé undir 150% en þetta viðmið er nú 120% hjá Reykjanesbæ, langt frá því viðmiði sem sveitarfélögum eru sett. Hjá bæjarsjóði er þetta viðmið nú 102% þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi þurft að yfirtaka rúmlega 8 milljarða af skuldum Reykjaneshafnar sem var löngu orðin gjaldþrota en er nú gjaldfær að nýju með mikla möguleika til vaxtar.
Þá hafa eignir sveitarfélagsins aukist verulega á þessum tveimur kjörtímabilum, voru 7,5 milljarðar árið 2014 en eru 28,3 milljarðar í árslok 2021. Á sama tíma hefur verið lagt út í verulegar fjárfestingar án þess að taka lán og nægir þar að nefna hið glæsilega mannvirki Stapaskóla. Verkefnin sem farið hefur verið í eru mýmörg en það er efni í aðra grein að telja þau öll upp.
Hópurinn sem skipar Beina leið hefur aflað sér mikillar reynslu á þeim tíma sem liðinn er, og er tilbúinn til áframhaldandi góðra verka. Þá reynslu eiga íbúar Reykjanesbæjar að nýta sér.
Nú hafa framboðin lagt fram áherslur sínar og mörg þeirra lofa gulli og grænum skógum verði þau kjörin til valda. Látum ekki útbólgin kosningaloforð villa okkur sýn. Slík loforð halda sjaldnast.
Horfum heldur til þeirra verka sem unnin hafa verið til góðs fyrir sveitarfélagið.
Höldum áfram á réttri leið. Höldum áfram á Beinni leið. X-Y
Guðbrandur Einarsson,
fráfarandi oddviti Beinnar leiðar og alþingismaður.