Afmæli Sveitarfélagsins Voga og sögumálþing
Sveitarfélagið Vogar á afmæli í ár og er 5 ára, 120 ára eða a.m.k. 740 ára, allt eftir því við hvað er miðað.
Elsta heimild um Vatnsleysustrandarhrepp er í jarðabréfi frá 1270, fyrir 740 árum. Njarðvík taldist lengi vel til Vatnsleysustrandarhrepps en árið 1889 var að frumkvæði heimamanna samið um að skipta hreppnum upp í Vatnsleysustrandarhrepp og Njarðvíkurhrepp. Sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu heimilaði skiptingu hreppanna 23. maí og var skiptingin samþykkt með landshöfðingjabréfi 21. sept. 1889 og tók gildi 1. október það ár. Þann 16. júní 1890 er þinglýst nýju landamerkjabréfi sem staðfestir landamerki milli Njarðvíkur og Voga. Þannig eru nú rétt 120 ár síðan sveitarfélagið varð til í núverandi mynd.
Í lok þessa árs eru 5 ár frá því að nafni Vatnsleysustrandarhrepps var breytt í Sveitarfélagið Vogar. Þá var stjórn og fundarsköpum breytt þannig að fjölgað var í bæjarstjórn úr 5 í 7 og tekið upp 3 manna bæjarráð sem hittist hálfsmánaðarlega.
Hvers vegna var sveitarfélaginu skipt fyrir 120 árum?
Síðustu áratugi hafa sveitarfélög verið að sameinast og stjórnvöld telja brýnt að sameina og stækka sveitarfélög. Annað var uppi á teningnum fyrir 120 árum.
Skipting hreppsins var að frumkvæði heimamanna. Þeir töldu hann vera orðinn of fjölmennan (1000 manns) og var þá talið auðveldara að stjórna minni hreppi. Þar væri ómegð minni, m.a. vegna þess að erfiðara væri að ávinna sér sveitarframfæri þar en í víðlendari hreppum. Hrepparnir voru lengst af félagsþjónusta fyrir þá sem áttu ekki fjölskyldu til að bakka sig upp – eins konar tryggingarfélag u.þ.b. 20 lögbýla.
Í bréfum frá þessum tíma var kvartað undan tíðum umskiptum hreppsnefndarmanna því ,,flestir nýtir hreppsbúar reyndu allt sem unnt væri til að koma sér undna því argaþrasi sem fylgdi setu í hreppsnefnd”.
Hvers vegna varð hreppurinn svo stór í lok 19. aldar?
Lengst af hefur íbúafjöldi Reykjavíkur og Vatnsleysustrandarhrepps líklega verið sambærilegur. Á 18. öld voru lítið eitt fleiri íbúar í Reykjavík en á 19. öld dregur í sundur með þessum sveitarfélögum jafnvel þótt íbúum í Vatnsleysustrandarhreppi fjölgi úr u.þ.b. 400 í 1000. Bændur höfðu flestir verið leiguliðar, fyrst Viðeyjarklausturs og síðar kóngsins og Bessastaðavaldsins, en eignuðust síðan jarðir sínar á fyrri hluta 19. aldar. Þá fiskaðist vel svo menn efnuðust og juku umsvifin.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen fer hér um 1884 lýsir hann byggðinni svona: "Hverfi eða þorp eru hér alls staðar fram með sjónum og mjög mannmargt, enda er hér einhver hin mestu fiskiver á Íslandi. Bændur voru og margir efnaðir og byggingar hvergi jafngóðar á Íslandi: svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin, þó voru gamaldags kofar innan um á stöku stað. Þó nú útvegsbændur væru margir ágætlega vel efnaðir, þá var þó mikill fjöldi af blásnauðu fólki innan um og meiri munur á efnahag manna en víða annars staðar."
Einn af elstu barnaskólum landsins
Árið 1872 – á blómaskeiði byggðarinnar - tekur hér til starfa barnaskóli í eigin sérbyggðu húsnæði og hefur hann starfað óslitið síðan. Mér virðist hann vera 3.-4. elsti barnaskóli landsins ásamt Gerðaskóla í Garði sem var stofnaður sama ár á svipaðan hátt. Þetta gerðist 10 árum eftir að Barnaskóli Reykjavíkur tók til starfa. Skólinn var sjálfseignarstofnun og bygging hans og rekstur var fjármagnaður með samskotum í sveitinni auk styrkja frá þeim merka Torchillisjóði sem Jón Þorkelsson Skálholtsskólarektor frá Njarðvík stofnaði eftir sinn dag til að kosta nám fátækra barna. Skólinn var reistur á jörðinni Suðurkot í Brunnastaðahverfi og hét fyrst Suðurkotsskóli og síðar Brunnastaðaskóli. Árið 1979 var byggt yfir hann í túni höfuðbólsins Stóru-Voga í Vogum og heitir hann eftir það Stóru-Vogaskóli. Börnin gengu í skólann, sum langan veg en úr fjarlægari hverfum var þeim komið fyrir á nálægum bæjum. Á tímabilum voru útibú frá skólanum í barnmörgum hverfum og tvívegis var byggt yfir slíkt útibú. Nú er Minjafélag Vatnsleysustrandar að endurgera lítið skólahús sem byggt var í Norðurkoti við Kálfatjörn árið 1903 og stendur til að þar verði skólasafn. Frá árinu 1943 hefur verið starfræktur skólabíll og eftir það lögðust slík útibú af.
Kaupstaðaréttindi 1893
Vogar urðu löggildur verslunarstaður (kaupstaður) 24. nóv. 1893. Nokkuð var deilt um það mál á Alþingi, sumir alþingismenn töldu það óþarfa og aðrir óttuðust aukinn drykkjuskap því þá yrði þar heimiluð verslun með áfengi. Tilgangurinn var “aðallega að gera mönnum þar syðra alla aðflutninga léttari og greiðari. Það var einmitt Vogavík, sem átti að verða kaupstaður, en ekki Keflavík, því á Vogavík er miklu betri höfn en á Keflavík og hægara og þægilegra að sækja þangað fyrir fjölda manna sem búa fyrir sunnan Garðahrepp.” (Egill Hallgrímsson, mbl. 24.22.1968).
Kannski var það kaldhæðni örlaganna að íbúum fór að fækka hér og umsvif að minnka einmitt um þetta leyti og áfram var það smáútgerð frekar en verslun sem setti svip á atvinnulífið. Á 19. öld voru m.a. gerð út þilskip frá Vogum og herma sagnir að menn hafi m.a. farið verslunarferðir til útlanda, m.a. Spánar
Málþing um sögu Sveitarfélagsins Voga 24. apríl
Laugardagurinn 24. apríl verður helgaður sögu Sveitarfélagsins Voga. Þá verður haldið hér daglangt málþing og raktir nokkrir þræðir sögu okkar, einkum sögu hreppfélagsins, atvinnulífs og barnauppeldis með áherslu á 19. öld, gullöldina okkar. Þar munu bæði lærðir og leiknir flytja erindi af ólíku tagi, sýndar ljósmyndir og farið í skoðunarferðir. Það verður forvitnilegt að fræðast um árabátaútgerð, seljabúskap í heiðinni og útilegumenn á Selsvöllum svo dæmi séu nefnd. Einnig verður skólanum gerð góð skil.
Málþingið er ókeypis og öllum opið og er boðið upp á súpu í hádeginu en æskilegt að skrá þátttöku í síma 440 6200 eða [email protected]. Dagskrána verður að finna á www.vogar.is Sveitarfélagið Vogar og Minjafélag Vatnsleysustrandar standa saman að málþinginu sem er það fyrsta sinnar tegundar og tengist afmæli sveitarfélagsins.
Hér er hægt að lesa ágætt yfirlit um sögu Vatnsleysuhrepps eftir Viktor Guðmundsson: http://www.vogar.is/Files/14_saga.pdf
Hér er hægt að skoða safn u.þ.b. 1000 ljósmynda, flestar frá því um miðja 20. öld: http://www.vogar.is/Files/14_saga.pdf
Þorvaldur Örn Árnason