Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Afhverju ég?
Föstudagur 28. febrúar 2014 kl. 15:07

Afhverju ég?

– Jóhann Snorri Sigurbergsson skrifar

Á morgun, laugardaginn 1. mars fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Stapa. Ég býð mig fram í 5.-6. sætið á lista flokksins. Ég hef fengið viðurnefnið Göngu-Jói þar sem ég hef verið duglegur, í fylgd fjölskyldunnar, að ganga í hús. Þannig hef ég reynt að hitta og tala við sem flesta til að kynna mig og kynnast hugmyndum bæjarbúa um hvað má bæta í sveitarfélaginu.

Ég hef líka skrifað nokkrar greinar sem birst hafa á vf.is þar sem ég hef reynt að lýsa raunhæfum verkefnum sem hægt er að fara í á næsta kjörtímabili til þess að gera enn betur og kynna hvað ég hef fram að færa í bæjarstjórnina. Ég er eini frambjóðandinn með börn á bæði leik-og grunnskólaaldri sem mér þykir mikilvægt, að í bæjarstjórn sé fólk sem er að ganga í gegnum það sem ungar fjölskyldur ganga í gegnum. Meðal annars tiltók ég dæmi um hversu mikill kostnaður leggst á foreldra ungra barna sem æfa íþróttir eða stunda aðrar tómstundir. Þar lýsti ég hugmyndum um hvernig við getum bætt það ástand, börnum og fjölskyldum til heilla.

Ég hef líka verið að benda á reynslu mína af atvinnulífinu. Ég er menntaður viðskiptafræðingur og starfa sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku. Í gegnum störf mín kynnist ég vel því ferli sem fyrirtæki sem vilja setja upp starfstöðvar á Íslandi og ekki síður á Suðurnesjunum þurfa að ganga í gegnum. Sú þekking auk fyrri reynslu af vöruþróun og markaðsmálum mun nýtast mér vel í störfum fyrir Reykjanesbæ. Greinin mín um ferðaþjónustu lýsti hugmyndum sem hægt er að hleypa af stokkunum hratt og örugglega með sameiginlegu átaki ferðaþjónustuaðila í bænum með dyggum stuðningi sveitarfélagsins.

Ég hef líka verið talsmaður þess að við höldum áfram að byggja upp bæinn okkar. Fegrum hann, aukum umferðaröryggi og gerum hann þannig úr garði að við getum verið enn stoltari af honum.

Að baki nánast öllum þeim hugmyndum sem ég eða aðrir frambjóðendur komum með í aðdraganda prófkjörs þarf fjármagn. Í ljósi skuldastöðu bæjarins hefur þurft að sýna mikla ráðdeild og ég vil að við höldum því áfram án þess þó að það komi niður á þjónustu við fjölskyldur og börnin (oft kallað grunnþjónusta). Til að auka það svigrúm sem við höfum er nauðsynlegt að við höldum áfram að borga niður skuldir. Ekki er síður mikilvægt að bæjarfélagið haldi áfram uppbyggingu og tryggi að núverandi íbúar vilji vera hérna áfram, fleiri bætist í hópinn og fyrirtæki sjá sér hag í að byggja hér upp. Því fylgja störf og vonandi hærri laun, sem gefa af sér hærra útsvar og þar með meiri sveigjanleika í uppbyggingu og niðurgreiðslu skulda.

Sjálfstæðisfólk. Stillum upp sigurstranglegum lista í prófkjörinu og tryggjum góðan hóp af hæfu og fjölbreyttu fólki til starfa. Ég tel mig hafa mikið fram að færa og óska því eftir stuðningi í 5.-6. sætið.

Jóhann Snorri Sigurbergsson
Höfundur er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku og sækist eftir 5.-6. Sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu 1. mars.

 
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024