Af verkunum eru menn dæmdir

Árið 2002 þegar Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Árna Sigfússonar, tekur yfir bæjarstjórn Reykjanesbæjar var skuldastaða bæjarins rúmlega 8 milljarðar. Við lok ráðningartímabils Sjálfstæðisflokksins í kringum 2013 var skuldastaða bæjarins komin í rúmlega 40 milljarða. 
 
Mér er spurn hvernig standi á því að skuldastaða okkar ástkæra bæjar er svona slæm, því á tímabilinu 2002 – 2013 voru seldar hér eignir og tekin lán fyrir um 25 - 30 milljarða króna. Á þessum árum áttu sér stað miklar framkvæmdir til að fegra bæinn, Hafnargatan var tekin í geng, hringtorg voru gerð og gangstéttar hellulagðar. Einnig voru mennta-, tómstunda- og fjölskyldumál sett í forgang.
 
Þrátt fyrir alla þá uppbyggingu sem átti sér stað í bæjarfélaginu er mér fyrirmunað að skilja í hvað þessir 80 til 90 milljarðar fóru. Ekki kostaði Hafnargatan fleiri milljarða. Er virkilega enginn sem veltir því fyrir sér í hvað allir þessir peningar fóru eða er fólki bara almennt sama? 
 
Það væri ekki úr lagi að fara fram á opinbera rannsókn á fjármálum bæjarins í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Fyrir mér er það skrítið hvernig menn geta labbað frá borði sem stóreignamenn eftir að hafa setið í bæjarstjórn í 20 ár eins og sumir virðast gera. Ekki nóg með að þeir skila bænum af sér í 40 milljarða króna halla og nánast eignalausum heldur sömdu Sjálfstæðismenn um að hér myndi rísa eitt stykki álver og þá strax í kjölfarið tvö stærstu kísilver í heimi. Blessunarlega varð ekkert úr álverinu. Við íbúar fengum hins vegar að kynnast því hvernig það er að vera með eitt kísilver í gangi á 25 prósent afköstum, allavega miðað við það sem var lagt upp með.
 
Síðastliðin fjögur ár hafa verið okkur íbúum Reykjanesbæjar sérstaklega erfið hvað varðar fjárhag bæjarins, skort á félagslegu húsnæði og mengun frá stóriðjunni í Helguvík. Núverandi bæjarstjórn hefur átt í vök að verjast við að halda lífi í fjárhag bæjarins eftir stórkostleg afglöp síðustu ráðamanna. Það var nefnilega fyrrverandi bæjarstjórn sem setti hér allt á hliðina en ekki núverandi. 
 
Bæjarstjórn Beinnar leiðar, Samfylkingar og Frjáls afls fékk það næstum ómögulega verkefni að rétta úr kútnum eftir margra ára sukk og svínarí fyrri bæjarstjórna. Þó svo að margt hefði mátt betur fara var við ofurefli að etja og miðað við aðstæður sýnist mér á öllu að við munum lifa þetta af. Ég ætla samt ekki að fara með neinum silki hönskum um hvernig að málum hefur verið staðið hjá núverandi bæjarstjórn, eins og t.d. varðandi málefni United Silicon. Þar hefði, að mér sýnist, bæjarstjórn getað tekið fastar á málunum og stutt betur við bakið á okkur bæjarbúum. 
 
Nú er sá tími kominn að kosningavélar stjórnmálaflokkanna eru byrjaðar að mala. Stutt í næstu kosningar og sumir hverjir byrjaðir að velta því fyrir sér hvað þeir eigi að kjósa. Látum ekki duttlunga Sjálfstæðismanna/kvenna í komandi kosningabaráttu slá ryki í augu okkar með fögrum loforðum sem svo aldrei verða efnd. Látum ekki stjórnmálaaflið sem kom okkur í þessar ógöngur fá keflið aftur. 
 
Það vill oft verða í valdabaráttunni að flokkar lofa því sem hagnast þeim best til að ná í atkvæðin. 
 
Er ekki komin tími til að við kjósendur gerum þá kröfu að staðið verði við sögð orð í kosningahitanum? Er ekki komin tími til að horfa til framtíðar og hugsa hvað komandi kynslóðum í bæjarfélaginu er fyrir bestu. Fyrir mitt leyti er það ekki uppbygging mengandi stóriðjuvera eða annarrar mengandi starfsemi. Það er margt annað sem hægt er að gera út í Helguvík sem ekki ógnar búsetu okkar eða heilsu íbúa hér í bænum. 
 
Ég hvet núverandi bæjarstjórn að efna til bindandi íbúakosningar við næstu bæjarstjórnarkosningar um þau málefni sem brenna á okkur íbúum. Svo sem málefni Helguvíkur, sameiningu Kölku og Sorpu og sundhallarinnar.
 
Einar Már Atlason