Af raforkuflutningskerfi og íbúakosningu
Á bæjarstjórnarfundi þann 19. september síðastliðinn greiddi meirihluti E-listans í Sveitarfélaginu Vogum atkvæði með því að ekki skyldi farið í íbúakosningu vegna uppbyggingar raforkuflutningskerfis í sveitarfélaginu.
Á borgarafundi þann 20. júní 2007 var rædd nýting svokallaðrar álverslóðar á Keilisnesi og mannvirki tengd orkunýtingu. Á fundinum létu flestir fundarmenn í ljós þá skoðun sína að stefnt skyldi að því að koma háspennulínum í jörðu. Þeirri skoðun hefur verið haldið á lofti allar götur síðan af hálfu E-listans. Í framhaldi af þessum borgarafundi hafa verið haldnir kynningarfundir og opið hús um uppbyggingu raforkuflutingskerfis á Suðurnesjum. Góðar kynningar og málefnaleg skoðanaskipti fóru þar fram.
Legið hefur ljóst um nokkurt skeið að styrkja þarf raforkuflutningskerfið á Suðurnesjum vegna íbúafjölgunar og atvinnuuppbyggingar. Meirihluti E-listans hefur lagt áherslu á það að ná samkomulagi við Landsnet um framtíðartillhögun raforkuflutningsmála í sveitarfélaginu. Þar spila inní hagsmunir íbúa Voga og Suðurnesjabúa allra. Að auki hefur farið fram mikil og góð vinna hjá stjórn Suðurlinda. Hagsmunir sveitarfélaganna sem að málinu koma innan Suðurlinda eru ólíkir og því ljóst að á einhverjum tímapunkti myndi málið færast heim í hérað. Stefna E-listans hefur því alltaf verið sú að ná samkomulagi um málið en ekki setja fram skilyrðislausar kröfur sem skapað gætu óvissu um framtíðarhagsmuni sveitarfélagsins.
Við búum í sveitarfélagi þar sem gegnumstreymi er mikið. Um okkar sveit liggur helsta samgönguæð svæðisins og flutningsleið, gildir þar einu hvort um ræðir fólk, vörur eða rafmagn. Má því segja að sveitarfélagið sé í lykilhlutverki þegar kemur að uppbyggingu og framþróun á svæðinu. Raforkuflutningskerfi er ekkert annað en samgöngumannvirki líkt og Reykjanesbrautin og skapar tækfæri til frekari uppbyggingar.
Í stefnuskrá E-listans kemur skýrt fram vilji til að auka lýðræðislega þátttöku íbúanna í málefnum sveitarfélagsins. E-listinn hefur á síðastliðnum 2 árum aukið upplýsingaflæði til íbúanna, komið á viðtalstímum kjörinna fulltrúa og haldið fjölmarga borgarafundi um hin ýmsu málefni sveitarfélagsins. Það er því ekki ofsögum sagt að að eftir rúmlega 2 ára valdatíð E-listans hefur verið gert meira í að bæta lýðræðismál í sveitarfélaginu en nokkru sinni fyrr.
Það er ljóst að því fylgir ábyrgð að taka ákvörðun. Bæjarfulltrúar E-listans buðu sig ekki fram til sveitarstjórnar til að forðast það að taka ákvarðanir. Þvert á móti höfum við þurft að taka margar ákvarðanir og er þessi, sem um ræðir hvorki stærri né minni en aðrar þær sem teknar hafa verið. Meirihlutinn ætlar sér að axla þá ábyrgð sem honum var treyst fyrir af meirihluta kjósenda, í þessu máli sem öðrum.
Bæjarfulltrúar E-lista í Vogum
Birgir Örn Ólafsson
Hörður Harðarson
Inga Rut Hlöðversdóttir
Bergur Álfþórsson